Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Einokunarstaða Spotify á Íslandi er áhyggjuefni

Mynd: RÚV / RÚV

Einokunarstaða Spotify á Íslandi er áhyggjuefni

11.06.2021 - 13:07

Höfundar

Tekjur af seldri íslenskri tónlist koma að langstærstum hluta frá streymisveitum, eða um 91%. Af þeim er Spotify með algjöra einokunarstöðu á Íslandi og Eiður Arnarsson, framkvæmdastjóri FHF, segir að það geti skapað óæskilegar aðstæður á markaði.

Félag hljómplötuframleiðanda birti nýverið skýrslu um sölu á tónlist á Íslandi fyrir 2020. Þar kemur fram að heildarsala hafi aukist í fyrsta sinn frá 2011. Hlutdeild íslenskrar tónlistar er rúm 20% af heildarsölu og 91% af tekjum er frá streymisveitum. 

Hlutfall íslenskrar tónlistar í þessum tölum hefur hríðfallið undanfarin ár en Eiður segir að það eigi sér trúlega eðlilegar skýringar. Það sem flokkast sem sala í dag sé að mestu leyti streymi á tónlist. Eiður segir að streymi sé nákvæm mæling á eiginlegri neyslu. „Streymið er í raun og veru raunmæling á hlustun á meðan sala á eintökum er bara ein viðskipti sem eiga sér stað í verslun og engin veit hvort platan hafi verið tekin úr plastinu eða hvort hún hafi verið spiluð hundrað sinnum. En streymið segir okkur nákvæmlega hversu mikið var spilað,” segir Eiður sem fór yfir niðurstöðu skýrslunnar í Morgunútvarpinu á Rás 2. 

Á undanförnum árum hefur verið hávær umræða um hvort greiðslur til tónlistarfólks frá streymisveitum séu sanngjarnar. Eiður segir að hlustandi þurfi trúlega að streyma plötu í heild sinni um 150 sinnum á streymisveitu til að skila tónlistarfólkinu sömu tekjum og ef viðkomandi hefði keypt geisladisk. Talan hækkar svo í 200-250 hlustanir á plötu í heild sinni til að ná upp í tekjur af seldu eintaki af vínylplötu. 

Sala á vínylplötum hefur haldið áfram að vaxa hér á landi og 2020 jókst hún um 36%, sem er nokkurn veginn í samræmi við löndin í kringum okkur. Eiður bendir þó á að 30% aukning sé ekkert svakalega hátt stökk fyrir íslenska markaðinn. „Það er úr tiltölulega lágum söðli að stökkva,” segir Eiður. Hann segir þó jákvætt að vínyllinn virðist vera kominn til að vera en sala á vínylplötum hefur aukist jafnt og þétt frá 2006. „En stökkin eru stærst undanfarin ár, bæði í sölu á vínylplötum og í sölu á plötuspilurum,” segir Eiður.

Sala á vínyl er því kærkomin búbót fyrir íslenskt tónlistarfólk enda eykst vínylútgáfa jafnt og þétt á Íslandi. „Þá skiptir það tónlistarmennina, höfunda og útgefendur gríðarlegu máli að þessi efnislega sala haldi sér í sæmilegu formi. Besti hlustandinn er auðvitað sá sem kaupir sér eintak, opnar það aldrei og hlustar bara á streymisveitur,” segir Eiður.

Þegar horft er á streymisveitur er Spotify með algjöra einokun á íslenska markaðnum. Á milli 97 og 98% af tekjum af streymi koma þaðan og það er mikið áhyggjuefni að sögn Eiðs sem bendir á að í öllum öðrum iðnaði myndi þetta einfaldlega flokkast sem einokun á markaði. „Við einokunaraðstæður geta skapast mjög óæskilegar aðstæður og óæskileg staða. Þannig að þetta er áhyggjuefni,” segir Eiður.

Ef hlutfall íslenskrar tónlistar myndi hækka í 30% af heildarsölu gæti það skipt gríðarlegu máli fyrir lífvænleika tónlistarinnar á Íslandi. Eiður segir að ábyrgðin sé fyrst og fremst í höndum neytenda en er þó með ráð fyrir tónlistarfólk á Íslandi. „Hættið þessu YouTube-bulli, það skilar engu. Það eru samningar en það er allt öðruvísi umhverfi. YouTube er í eðli sínu ókeypis veita og byggir eingöngu á tekjumódeli auglýsinga. Það sem ein spilun á YouTube skilar á móti einni spilun á streymisveitu er einn tíundi. Það væri ágætis byrjun að beina fólki meira á streymisveiturnar frekar en á YouTube,” segir Eiður.

Tengdar fréttir

Innlent

Næstum 90 prósent tónlistarsölu í gegnum Spotify

Tónlist

Fá mun meira frá Spotify en fólk virðist halda

Tónlist

Tæpar 250 milljónir frá Spotify og vínylplatan vinsæl