BPO sektað fyrir innheimtu á smálánaskuldum

11.06.2021 - 09:04
úr umfjöllun Kveiks um smálán
 Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson
Neytendastofa hefur sektað innheimtufyrirtækið BPO fyrir umfangsmikil og alvarleg brot á neytendalögum vegna innheimtu sinnar á skuldum smálánafyrirtækja. Neytendastofa segir í ákvörðun sinni að þeir hagsmunir sem hafi verið undir hafi varðað viðkvæm fjárhagsmálefni og beinst að viðkvæmum hópi. Þá hafi BPO verið í yfirburðastöðu og neytendur eigi að geta reiknað með að kröfur sem birtast í netbönkum séu réttar að efni og fjárhæð.

Fram kom í fréttum um miðjan apríl að BPO innheimta hefði sent innheimtukröfur á fólk vegna smálána. Alls voru birtar 24 þúsund kröfur í netbanka hjá rúmlega fimm þúsund neytendum. 

Kröfurnar, sem áður voru í eigu smálánafyrirtækisins E-Commerce, birtust í heimabanka hjá viðkomandi og voru á eindaga sama dag. Umboðsmaður skuldara sagði í fréttum RÚV að þetta væri brot á góðum innheimtuháttum sem kveðið væri á um í lögum. Fyrirtækið dró í land, tók kröfurnar út og sendi síðan uppfærðar kröfur. 

Í ákvörðun Neytendastofu kemur fram að kröfurnar hafi birst án viðvörunar eða tilkynningar í heimabanka. Ekki var hægt að sjá upphaflega lánsfjárhæð eða sundurliðun. Daginn eftir að kröfurnar voru sendar margfaldaðist fjárhæð þeirra og dæmi voru um að fólk sem hafði samið um endurgreiðslu við annað innheimtufyrirtæki fengi kröfu í heimabanka sinn.

Forsvarsmenn BPO funduðu með Neytendastofu um miðjan síðasta mánuð. Fyrirtækið vísaði því á bug í skriflegu svari til stofnunarinnar að það hefði  stundað óréttmæta eða villandi viðskiptahætti af neinu tagi. Það taldi enn fremur að það væri ekki Neytendastofu að meta innheimtuhætti félagsins heldur Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands. Fyrirtækið baðst engu að síður afsökunar á því ef kröfurnar hefðu verið villandi eða þær leitt til þess að skuldarar greiddu kostnað sem ekki var verið að innheimta.

Neytendastofa er býsna hvöss í gagnrýni sinni á starfshætti BPO. Tölvupóstur sem fyrirtækið sendi neytendum er sagður hafa verið bæði óskýr og villandi. Bent er á að þeir hagsmunir sem þarna voru undir hafi varðað viðkvæm fjárhagsmálefni neytenda. Þeir sem hafi lent í vanskilum með smálán séu fjárhagslega viðkvæmur hópur. „Brot félagsins eru því bæði umfangsmikil og alvarleg,“ segir í ákvörðun Neytendastofu.

Fyrirtækið var talið hafa brotið neytendalög með birtingu krafna í heimabönkum sem og með auglýsingu í Fréttablaðinu. Þar var fullyrt að allri óvissu um lögmæti krafna hefði verið eytt. 

Neytendastofa horfði þó til þess að kröfurnar hefðu verið fjarlægðar eftir umfjöllun fjölmiðla auk samstarfsvilja fyrirtækisins. Var hæfileg sekt því talin vera 1,5 milljónir króna.