Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

300 mega koma saman í næstu viku

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Santos - RÚV
Slakað verður á samkomutakmörkunum hér á landi í næstu viku en 300 mega koma saman eftir 15. júní. Þá verður eins metra regla í stað tveggja metra reglu. Grímuskylda verður áfram á sitjandi viðburðum. Þetta kemur fram á vef heilbrigðisráðuneytisins.

Opnunartími veitingastaða lengist um klukkustund, og veitingastaðir mega því hafa opið til miðnættis. Í minnisblaði sóttvarnalæknis segir að staðan hér á landi varðandi heimsfaraldur Covid-19 sé góð. Frá 25. maí síðastliðnum þegar gildandi reglur voru settar hafi 42 einstaklingar greinst með Covid-19 innanlands, þar af 25 í sóttkví. Síðustu daga hafi daglegum tilfellum fækkað mikið og enginn greinst utan sóttkvíar þrátt fyrir að mörg sýni hafi verið greind. 

Í afléttingaráætlun stjórnvalda var gert ráði fyrir að öllum takmörkunum innanlands yrði aflétt seinni hluta júnímánaðar. Þá var gert ráð fyrir að búið yrði að bólusetja 75 prósent landsmanna. Það er á góðri leið en forsendur þess eru að áætlanir um afhendingar bóluefna standist og sömuleiðis bólusetningaráætlunin. 

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sendi heilbriðisráðherra tvö minnisblöð í vikunni, um tilslakanir innanlands og aðgerðir á landamærunum. Reglugerðin varðandi landamærin fellur úr gildi 15. júní og um samkomutakmarkanir innanlands þann 16. júní.