Vill styðja eflingu vetnis- og rafeldsneytisframleiðslu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson - RÚV
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hyggst láta vinna sérstakan Vegvísi fyrir vetni og rafeldsneyti. Hún segir að nýting rafeldsneytis sé mikilvægur hluti þeirrar stefnu að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti árið 2050.

Þetta kom fram í máli Þórdísar Kolbrúnar á aðalfundi Orkuklasans fyrir skemmstu þar sem nýting slíkra orkugjafa var sérstaklega til umræðu. Hún sagði rafeldsneyti einn þeirra orkugjafa sem leysa myndi jarðefnaeldsneyti af hólmi.

Nýting rafeldsneytis, einkum vetnis, hefur verið í umræðunni um áratuga skeið en ekki náð flugi fyrr en undanfarna mánuði. Áhersla ríkisstjórnarinnar á rafeldsneyti segir hún endurspeglast í aðgerðaáætlun Orkustefnu fyrir Ísland til ársins 2050.

Ætlunin er að þá verði Ísland alfarið orðið óháð jarðefnaeldsneyti. Rafeldsneyti er samheiti yfir það sem fæst þegar þekktar eldsneytistegundir eru búnar til úr vetni, sem fengið er með rafgreiningu vatns og íblöndun koltvísýrings. 

Ráðherra segir að í upphafi verði staða mála metin í samvinnu við alþjóðlega ráðgjafafyrirtækið Roland Berger og Landsvirkjun. Á því stigi segir hún að allir megi leggja fram gögn, upplýsingar og sjónarmið en svo þegar frá líði verði haft nánara samráð við alla sem hagsmuna hafi að gæta.

Markmiðið sé að styðja við uppbyggingu vetnis- og rafeldsneytisframleiðslu, með áherslu á þungaflutninga og starfsemi tengda siglingum. Jafnframt þurfi að byggja upp innviði til framleiðslu og flutnings vetnis, og möguleika á útflutningi græns vetnis.