Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Vill Fujimori í gæsluvarðhald á ný

Presidential candidate Keiko Fujimori waves at supporters after casting her vote in Lima, Peru, Sunday, June 6, 2021. Peruvians head to the polls in a presidential run-off election to choose between Fujimori, the daughter of jailed ex-President Alberto Fujimori, and political novice Pedro Castillo. (AP Photo/Guadalupe Pardo)
 Mynd: AP
Saksóknari í Perú fór í dag fram á að forsetaframbjóðandinn Keiko Fujimori yrði sett í gæsluvarðhald þar sem hún hefði brotið gegn skilyrðum um reynslulausn. Málaferli eru í gangi gegn henni fyrir fjármálamisferli. 

Fujimori er sökuð um að hafa brotið lög þegar hún þáði fé frá stórfyrirtækinu Odebrecht í kosningasjóð sinn er hún bauð sig fram til forseta árin 2011 og 2016. Hún hefur jafnan neitað sök, en setið sextán mánuði í gæsluvarðhaldi vegna þess. Hún fékk reynslulausn til að bjóða sig fram í forsetakosningum sem fram fóru á sunnudaginn var. Saksóknarinn sem krefst þess að hún verði sett í varðhald að nýju segir að hún hafi rofið skilyrði reynslulausnar með því að hafa samband við vitni í málinu gegn henni.

Enn er eftir að telja innan við eitt prósent atkvæða eftir kosningarnar á sunnudag. Pedro Castillo, frambjóðandi vinstrimanna, er með naumt forskot, 50,2 prósent á móti 49,8 prósentum Keiko Fujimori. Hann hefur þegar lýst yfir sigri, en hún gerir ýmsar athugasemdir við framkvæmd kosninganna og krefst þess að tvö hundruð þúsund atkvæði verði dæmd ógild. Ekki er búist við endanlegri niðurstöðu kosninganna fyrr en eftir tíu til tólf daga.