Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Trú á ríkisrekstri má ekki bitna á heilbrigðisþjónustu

10.06.2021 - 09:19
Mynd: Bragi Valgeirsson / RÚV
Staða heilbrigðiskerfisins verður að öllum líkindum eitt af stóru kosningamálunum í komandi kosningum. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar hefur látið mikið að sér kveða í málefnum heilbrigðiskerfisins að undanförnu. Hann er hlynntur ríkisreknu heilbrigðiskerfi en geti hið opinbera ekki sinnt nauðsynlegri þjónustu verður að gera einkaaðilum kleift að stíga inn og stytta þannig biðlista.

Frá því að COVID-19 faraldurinn hófst hefur Kári oft hrósað íslensku þjóðinni hvernig hún hefur tekist á við faraldurinn. Hann segir mikið af afar hæfu fólki starfa innan heilbrigðiskerfisins en árangur Íslands sé þó ekki góðu heilbrigðiskerfi að þakka. Heilbrigðiskerfið sjálft sé býsna lélegt og Kári segir ástæðuna meðal annars vera að því hafi verið leyft að þróast með óskipulögðum hætti á síðustu árum. Mikið sé um stórar einkareknar heilbrigðisstofur sem starfi ekki undir opinberri gæðastjórn. „Afleiðingin af því er að það eru svolitlar beyglur í þessu, til dæmis að við Íslendingar erum iðnari en aðrar þjóðir við að rífa hálskirtla úr litlum börnum. Gerum það svo oft að það er varla hægt að líta á það öðruvísi en svo að hluti af þessu sé óheft ofbeldi gegn börnum. Af því að þegar þú ferð ofan í hálsinn á fólki og rífur út hálskirtla og það er engin sérstök ástæða fyrir því er erfitt að flokka það öðruvísi. Þetta er gert af læknum sem eru hjartahlýir, góðir og fínir. En þeir hafa ekki það aðhald sem felst í gæðastjórnun,” segir Kári sem ræddi stöðu íslenska heilbrigðiskerfisins í þættinum Korter í kosningar á Rás 2. 

Þetta skal þó ekki túlkast á þann hátt að Kári sé algjörlega mótfallinn því að einkastofur sinni heilbrigðisþjónustu. Að hans mati á heilbrigðiskerfið að vera rekið af ríkinu að mestu leyti og eigi að gegna því hlutverki að hlúa að þeim sem minna megi sín, þeim sem séu lasnir og meiddir. Hugmyndin um ríkisrekið heilbrigðiskerfi megi þó aldrei verða til þess að ekki sé hægt að veita heilbrigðisþjónustu, nefnir hann Læknaklíníkina í Ármúla sem dæmi en Kára þykir undarlegt að heilbrigðisráðuneytið hafi ekki samið við Klíníkina um að gera liðskiptaaðgerðir á fólki sem jafnvel getur ekki sofið á næturnar vegna verkja. „Það væri hægt að losna við biðlistann með því að semja við Klíníkina,” segir Kári og bætir við að með því að semja við verktaka um ákveðna þætti heilbrigðisþjónustu sé ekki verið að snúa bakinu við ríkisreknu heilbrigðiskerfi. „Einhverra hluta vegna hefur Svandís Svavarsdóttir, sá duglegi heilbrigðismálaráðherra, hún hefur ekki fundið hjá sér löngun til að semja við þá af því hún vill ekki einkarekstur í heilbrigðiskerfinu á hennar vakt. En þú bara gerir ekki svona. Þú fellst ekki á að fólk gangi um halt, hökti um og geti ekki sofið á næturnar bara af því að þú trúir svo sterklega á ríkisrekstur að þú viljir ekki semja við fyrirbrigði eins og Klíníkina upp í Ármúla til að lina þjáningar fólks. Þetta er óásættanlegt, þetta er bjánalegt,” segir Kári.

Óheppin með ráðherra og læknafélag

Vandi heilbrigðiskerfisins snýst að miklu leyti um fjárskort. Kári segir vandamálið ekki aðeins snúa að ríkisstjórninni heldur einnig Læknafélagi Íslands, sem að mörgu leyti er klassískt stéttarfélag að hans mati, það berst fyrir kjörum síns fólks en sé ekki fagfélag sem berst fyrir betra heilbrigðiskerfi. „Við sem þjóð höfum verið dálítið óheppin núna upp á síðkastið. Annars vegar með heilbrigðismálaráðherra sem lætur pólitísk hugmyndakerfi ráða meiru en þörf heilbrigðiskerfisins kannski. Og hins vegar læknafélag sem þykir vænna um vasa félagsmanna heldur en heilbrigðiskerfið sem slíkt,” segir Kári.

Aðspurður um verkefni næstu ríkisstjórnar í heilbrigðismálum segir Kári mikilvægt að halda áfram því verki sem Svandís Svavarsdóttir hóf á kjörtímabilinu, að setja saman heildarskipulag á heilbrigðisþjónustunni. Hann segir mikilvægt að útfæra þessa hugmynd betur, það er að skipuleggja heildar heilbrigðiskerfi þar sem Landspítalinn verði að nokkru leyti sem miðtaugakerfi heilbrigðisþjónustunnar og sinni gæðaeftirliti með annarri læknisþjónustu í landinu. „Mér finnst alveg gjörsamlega út í hött að menn einblíni þannig á þann vilja sinn til þess að láta heilbrigðiskerfið allt vera ríkisrekið að það meini fólki þess að geta sótt sér heilbrigðisþjónustu annars staðar. Ef það er ekkert framtak frá ríkinu til þess að bæta heilbrigðisþjónustuna þá verðum við að sætta okkur við það að einkaframtakið sinni þessari þjónustu að einhverju leyti,” segir Kári.

Staðan okkur sjálfum að kenna

Kári tekur samtökin Einstök börn sem dæmi, en það eru samtök foreldra þeirra barna sem glíma við fágæta sjúkdóma. Kári segir algengt að annað foreldri þessara barna geti ekki unnið fulla vinnu vegna þess hversu mikill tími fer í að sinna börnunum. Samtökin hafa reglulega farið fram á að komast á fjárlög eða fá stuðning stjórnvalda en án árangurs. „Hvernig í ósköpunum stendur á því að Alþingi getur fengið sig til að hafna þessu fólki algjörlega. Hvað er að þessu? Við vitum það. Börn með þessa sjúkdóma mynda slíkt álag á fjölskyldur að mjög oft þá sundrast þær vegna þess að fólk getur ekki staðið undir þessu. Hvað er að þessu fólki? Hvað er að okkur sem þjóð? Það er ekki bara hægt að kenna ríkinu og Alþingi um þetta. Við eigum að kenna okkur sjálfum um þetta. Við kjósum þetta fólk. Hvers konar idíótar erum við að kjósa þetta fólk á þing? Hvað er að okkur sem þjóð?” segir Kári. 

Vill borga hærri skatta

Einfaldasta leiðin til að bæta heilbrigðisþjónustu á Íslandi er að auka skattheimtu og hann sjálfur myndi gjarnan vilja leggja meira af mörkum til heilbrigðiskerfisins. „Mér fyndist eðlilegt að fólk í minni stöðu, almennt séð, sé skattlagt hærra, já. Mér finnst eins og við verðum einhvern veginn að finna leið til þess að fjármagna samneyslu og það gerum við ekki öðruvísi en að auka opinber gjöld, þú getur ekki gert það á öðrum en þeim sem hafa eitthvað afgangs. Fólk eins og ég og fleiri,” segir Kári.

Nýr spítali leysir ekkert

Nú standa yfir miklar framkvæmdir þar sem nýr spítali á að rísa. Kári er þó ekki á því að nýr spítali leysi vanda heilbrigðiskerfisins. „Heilbrigðisþjónusta er ekki hús. Heilbrigðisþjónusta er fólk sem er vel þjálfað og sinnir starfi sínu af heilhug, hefur samhygð með sínum sjúklingum og svo framvegis. Sjúkrahúsið er nauðsynlegt en það er ekki stórt skref. Það er myndarlegt skref en það er ekki þannig að það bylti heilbrigðisþjónustunni. Við getum bylt heilbrigðisþjónustunni með því að gera það sem þarf til að losna við biðlista og svo framvegis og auka við þjónustu á hinum ýmsu sviðum,” segir Kári. 

Á endanum segir Kári að við sem þjóð berum ábyrgð á hvernig heilbrigðiskerfi sé í landinu. Sé heilbrigðiskerfið ekki gott eigum við einfaldlega ekkert annað betra skilið. „Við erum þau sem kjósum fólkið til að stjórna landinu. Við erum þau sem eiga að veita þessu fólki aðhald. Við sem þjóð höfum brugðist hvað þetta snertir. Tökum sem dæmi, við söfnuðum saman 85.000 manns og skrifuðum undir ákveðna kröfu til löggjafans sem löggjafinn hundsaði að mestu leyti. Svo komu kosningar og við kusum þetta sama fólk aftur. Við höfum engan rétt til þess að væla yfir þessu. En við höfum það sem skyldu að minna þetta fólk á að við sem erum að kjósa það, við viljum betra heilbrigðiskerfi. Við viljum að það sé sett meira í heilbrigðiskerfið. Við viljum að það sé sett saman heildarstefna í heilbrigðisþjónustu í landinu, nú er kominn rammi að henni en það þarf að fylla upp í þann ramma. Við eigum að gera þá kröfu til þeirra sem eru að bjóða sig fram til Alþingis að þetta fólk, þegar það er komið á sinn stað við Austurvöll að það hlúi að heilbrigðiskerfinu. Ef þetta fólk gerir það ekki þá eigum við að fella yfir þeim þunga dóma. Við eigum að kjósa það út af þingi, en við höfum brugðist okkur sjálfum sem þjóð með að gera það ekki,” segir Kári.

Nánar var rætt við Kára Stefánsson í þættinum Korter í kosningar á Rás 2. Hægt er að hlusta á þáttinn hér.

orrifr's picture
Orri Freyr Rúnarsson
gudmundurp's picture
Guðmundur Pálsson
dagskrárgerðarmaður