Þýskir fjölmiðlar velta sér upp úr ástamálum Rúriks

Knattspyrnukappinn Rúrik Gíslason vann í kvöld sigur í þýsku útgáfunni af Let's Dance, danskeppni þar sem stjörnur af ýmsum sviðum taka snúning með atvinnudansara sér við hlið og keppa um hylli dómara og áhorfenda. Rúrik hefur ekki vakið minni athygli fyrir fótafimi sína á dansgólfinu en á sparkvellinum og í kvöld dansaði hann til sigurs með sínum dansfélaga, Renötu Lusin.
 Mynd: Skjáskot - RTL.DE

Þýskir fjölmiðlar velta sér upp úr ástamálum Rúriks

10.06.2021 - 08:57

Höfundar

Knattspyrnukappinn Rúrik Gíslason dansaði sig inn í hug og hjörtu þýsku þjóðarinnar þegar hann vann Let's Dance í gervi þrumuguðsins Þórs. Þýskir fjölmiðlar velta nú vöngum yfir því hvort danskeppnin, sem nýtur mikilla vinsælda í Þýskalandi, hafi sett strik í reikninginn hjá Rúrik í einkalífinu.

Sjá má andlit Rúriks á forsíðu miðla eins og Bild og RTL þar sem reynt er að svara hinni stóru spurningu; Hvað er í gangi milli Valentinu Pahde og Rúriks Gíslasonar?  

Pahde, sem er þýsk leikkona, hafnaði í öðru sæti á eftir Rúrik í dansþættinum.

Þýsku fjölmiðlarnir virðast hafi komist á snoðir um færslu brasilísku fyrirsætunnar Nathaliu Soliani en hún og Rúrik hafa verið kærustupar síðustu tvö ár. 

Í færslunni segir hún að sambandi hennar og Rúriks sé lokið þar sem hann og Phade hafi verið stinga saman nefjum. Þau séu nú að sleikja sólina saman á Grikklandi.  Soliani hefur fjarlægt færsluna eftir fjölmiðlar í Þýskalandi komust á snoðir um hana.

Þýsku fjölmiðlarnir segja hana einnig hafa eytt öllum myndum af Rúrik af Instagram-síðu sinni, meðal annars þeim sem teknar voru á Íslandi og sé nú hætt að fylgja honum á samfélagsmiðlinum. Það sé eitt skýrasta merkið um að sambandi sé lokið.

Talsmenn Pahde og Rúriks vildu ekki tjá sig við RTL þegar eftir því var leitað.  Þar kemur fram að Rúrik og Soliani hafi ekki getað hist í nokkra mánuði vegna kórónuveirufaraldursins og þátttöku hans í sjónvarpsþáttunum. Bild fullyrðir að sambandi Soliani og Rúriks hafi lokið áður en tökur á þáttunum hófust.   

Rúrik var með íslenska landsliðinu á HM í Rússlandi. Hann vakti heimsathygli þegar hann kom inná fyrir Jóhann Berg Guðmundsson í leiknum gegn Argentínu og varð stjarna á samfélagsmiðlum. Hann lagði knattspyrnuskóna á hilluna í nóvember á síðasta ári til að einbeita sér að öðrum verkefnum, meðal annars kvikmyndaleik og tónlist.