Þórhallur og Hallveig fá heiðursverðlaun Grímunnar

Mynd: Gríman / RÚV

Þórhallur og Hallveig fá heiðursverðlaun Grímunnar

10.06.2021 - 21:25

Höfundar

Þórhallur Sigurðsson og Hallveig Thorlacius fá heiðursverðlaun Sviðslistasambands Íslands 2021. Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands afhenti verðlaunin á Grímuverðlaunahátíðinni.

Þórhallur og Hallveig eiga það sameiginlegt að hafa verið burðarstólpar í íslensku barnaleikhúsi. Þórhallur lék sitt fyrsta hlutverk í Þjóðleikhúsinu með Herranótt árið 1966. Hann brautskráðist úr leiklistarskóla Þjóðleikhússins 1970 en hafði þá þegar leikið í fimm sýningum leikhússins, meðal annars stórt hlutverk í Fiðlaranum á þakinu og titilhlutverk í Malcolm litla. Þórhallur hefur starfað við Þjóðleikhúsið sem leikari og leikstjóri í yfir 50 ár og er sá starfsmaður sem hefur lengstan starfsaldur allra við húsið.

Mynd: Gríman / RÚV

Hallveig stundaði nám við háskólann í Moskvu og síðar nám í dramatúrgíu fyrir brúðuleikhús í Tékklandi. Leikhúsferill hennar hefur spannað áratugalangt tímabil. Hún hefur starfað sem leikhússtjóri, handritshöfundur, brúðusmiður, brúðustjórnandi, leikmyndahöfundur, leikkona og trúður. Hún var einn af fjórum stofnendum Leikbrúðulands, þar sem hún starfaði í rúm 20 ár og tók þátt í uppfærslum sem fóru vítt og breitt um landið og út um alla Evrópu. Um þessar mundir ferðast hún um landið, ásamt samstarfsfólki, á vegum velferðarráðuneytis og Barnaverndarstofu með sýninguna Krakkarnir í hverfinu, sem er fræðslusýning um ofbeldi gegn börnum.

Tengdar fréttir

Leiklist

„Af hverju tökum við ekki upp pólsku í stað dönsku?“

Leiklist

Grímuverðlaunin afhent

Leiklist

Þau eru tilnefnd til Grímunnar í ár