Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Þinglok ekki ákveðin enn - kapp lagt á að finna lausn

Mynd með færslu
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Þingflokksformönnum hefur ekki tekist að komast að samkomulagi um þinglok. Nú sitja formennirnir á fundi þar sem allt kapp er lagt á að finna lausn sem allir geti sætt sig við.

Að sögn Birgis Ármannssonar þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins verður fundað áfram fram eftir kvöldi til að leysa úr þeim flækjum sem við blasa. Þingfundur stendur enn yfir og er nokkur fjöldi mála sem bíður umræðu. 

Ýmis mikilvæg stjórnarfrumvörp bíði þess að verða rædd í þinginu og sömuleiðis nokkur þingmannamál. Birgir segir ótímabært að segja til um hvort samkomulag næst um þinglokin í kvöld.

Fyrr í dag var greint frá því að þegar væri ákveðið að frumvarp heilbrigðisráðherra um afglæpavæðingu neysluskammta verði ekki afgreitt á þessu kjörtímabili og þá þykir ólíklegt að hægt verði að skapa sátt um stjórnarskrárfrumvarp Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.

Önnur frumvörp sem ekki verða afgreidd eru leigubílafrumvarp samgönguráðherra og frumvörp dómsmálaráðherra um annars vegar breytingar á lögum um mannanöfn og hins vegar breytingar á áfengislöggjöfinni.