Tengsl milli bólusetninga og andláta fátíð ef einhver

10.06.2021 - 13:38
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir ljóst að tengsl milli bólusetninga við COVID-19 og dauðsfalla séu að minnsta kosti mjög fátíð hér á landi. Greint var frá því fyrr í dag að Lyfjastofnun hefði borist 23 tilkynningar um andlát eftir bólusetningu.

„Þetta kemur mér ekki á óvart. Við höfum verið að hvetja fólk til að tilkynna og þegar við erum að bólusetja svona gríðarlega marga, nánast stærsta hluta þjóðarinnar á stuttum tíma þá segir það sig sjálft að það er ýmislegt sem getur gerst hvort sem það er tengt bólusetningu eða ekki,“ segir Þórólfur.

Þó þurfi að fylgjast vel með hugsanlegum tengslum. „Það sem við erum að fylgjast með sérstaklega eru dauðsföll og tíðni á blóðsegamyndun og blæðingarvandamálum sem hafa verið tengd bólusetningum, sérstaklega AstraZeneca bóluefninu. Erum við að sjá aukningu á þessu miðað við undanfarin ár? Ef við skoðum það sem við höfum verið að sjá erum við ekki að sjá neina aukningu. Ef við skoðum það geta verið í stöku tilfellum tengsl á milli, en það er allavega ekki algengt,“ segir hann.

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV