Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Skýrar flokkslínur í afstöðu til hálendisþjóðgarðs

niðurstöður könnunar Landverndar um hálendisþjóðgarð
 Mynd: RÚV
Mikill munur er á afstöðu fólks til hálendisþjóðgarðs eftir stjórnmálaskoðunum. Mestur stuðningur við þjóðgarð er á meðal kjósenda Vinstri grænna og stjórnarandstöðuflokkanna en andstaðan er mest á meðal þeirra sem kjósa Miðflokk, Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk.

Ljóst er að þingið mun ekki afgreiða frumvarp umhverfisráðherra um hálendisþjóðgarð og hefur málinu verið vísað aftur til ríkisstjórnar. Þjóðgarðurinn var eitt helsta áherslumál Vinstri grænna og kveðið á um hann í stjórnarsáttmála.

Málið er umdeilt, bæði innan og utan þings. Það kristallast í skoðanakönnun sem Gallup gerði fyrir Landvernd, en þau samtök hafa barist fyrir stofnun þjóðgarðsins. Rúmlega 43 prósent segjast hlynnt stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu á meðan 34 prósent eru því andvíg.

Könnunin sýnir að konur eru hlynntari þjóðgarði en karlar, andstaðan virðist aukast með hækkandi aldri, íbúar á höfuðborgarsvæðinu og í nágrannasveitarfélögum eru hlynntari þjóðgarði en andstaðan er meiri á landsbyggðinni.

Sé afstaðan skoðuðu eftir stuðningi við stjórnmálaflokka koma skýrar línur í ljós. Helstu stuðningsmenn þjóðgarðs er að finna í kjósendahópi Vinstri grænna, Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar. Átta af hverjum tíu kjósendum VG eru hlynnt þjóðgarðinum, 70 prósent kjósenda Samfylkingar og 66 prósent kjósenda Pírata. Helstu andstæðinga þjóðgarðsins er hins vegar að finna í röðum Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Miðflokks. Sjö af hverjum tíu kjósendum Miðflokks vilja ekki hálendisþjóðgarð lítk og rúmlega helmingur kjósenda Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, Kjósendur annarra flokka hallast frekar að stofnun þjóðgarðs.

Magnús Geir Eyjólfsson