Röðin mjakast einn kílómetra á klukkustund

10.06.2021 - 14:51
Mynd með færslu
 Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson - RÚV
Röð í bólusetningu í Laugardalshöll nær nú langleiðina að Glæsibæ. Í morgun var útlit fyrir að aðeins helmingur þeirra sem höfðu fengið boð í bólusetningu myndu láta sjá sig og því voru send boð á næstu árganga. Fólk sem fréttastofa ræddi við stóð í rigningunni í grennd við Glæsibæ og sagði röðina færast um það bil einn kílómetra á klukkustund. Skammtarnir eru að klárast og heilsugæslan ræður fólki aftarlega í röðinni frá því að bíða.

Áfram verður bólusett með bóluefni Janssen á mánudag og næstu daga á eftir og Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá heilsugæslunni, segir þá sem ekki komust að í dag ekki þurfa að örvænta.

Staðan var svipuð í gær þegar nokkur þúsund manns biðu þess að komast að í bólusetningu með bóluefni AstraZeneca. Fjöldi fólks mætti sem ekki hafði fengið boð til þess að freista þess að fá seinni sprautu aðeins fjórum vikum frá þeirri fyrri.