„Okkur finnst Alþingi hafa brugðist“

10.06.2021 - 09:56
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stjórn Landverndar er harðorð í garð Alþingis eftir að ljóst varð að ekkert yrði af stofnun hálendisþjóðgarðs á þessu kjörtímabili. Stjórnarliðar í umhverfis- og samgöngunefnd vilja vísa málinu aftur til umhverfis- og auðlindaráðherra. Stjórn Landverndar ræddi niðurstöðuna í gær og samþykkti ályktun þar sem þingið er sagt hafa hunsað stjórnarsáttmálann með framgöngu sinni. Þingmenn hafi látið hjá líða að leysa úr ágreiningsmálum og komið í veg fyrir mikilvægan áfanga í íslenskri náttúruvernd.

„Við erum aðallega leið, okkur finnst Alþingi hafa brugðist,“ segir Tryggvi Felixson, formaður Landverndar. Hann segir að þar sem kveðið hafi verið á um það í stjórnarsáttmála að setja ætti lög um hálendisþjóðgarð hafi samtökin gert ráð fyrir að Alþingi myndi klára málið. Þingið hefði átt að gera málamiðlun sem hefði tryggt framgang málsins.

„Að okkar mati er þetta ákaflega mikilvægt náttúruverndarmál,“ segir Tryggvi. Stofnun hálendisþjóðgarðs væru einnig skilaboð til heimsins um að Íslendingar taki náttúruvernd alvarlega. Hann segir það því mikil vonbrigði að Alþingi hafi brugðist. Tryggvi segir málinu þó hvergi nær lokið. „Náttúruvernd er sífellt að vaxa, gildi hennar og mikilvægi. Við eigum ekki von á öðru en að Alþingi sem þjóðin fær tækifæri til að kjósa í september reynist færari í að leysa þessi mál en það sem nú situr.

Stjórn Landverndar vísar til þess að undirbúningur að stofnun hálendisþjóðgarðar hafi staðið yfir árum saman með víðtækri samræðu. Alþingi hafi að auki haft rúmlega hálft ár til að kynna sér og betrumbæta frumvarp umhverfis- og auðlindaráðherra í ljósi umsagna. „Þess vegna átti stjórn Landverndar von á því Alþingi færi vel og vandlega yfir allar umsagnir, lagfærði það í frumvarpinu sem betur mætti fara, svo víðtæk sátt gæti náðst um málið; og gæfi svo þjóðinni Hálendisþjóðgarð í sumargjöf. Þessar vonir hafa brugðist,“ segir stjórn Landverndar en segir þó næsta víst að þjóðin fái þann hálendisþjóðgarð sem víðtækur stuðningur er við.