Níu fórust er hús hrundi í Suður Kóreu

10.06.2021 - 06:12
epa09256890 Firefighters carry out rescue operations after a 5-story building collapsed and fell on a bus and two passenger cars in the southwestern city of Gwangju, South Korea, 09 June 2021. At least eight people were seriously injured in the accident.  EPA-EFE/YONHAP SOUTH KOREA OUT
 Mynd: EPA-EFE - YNA
Minnst níu manns fórust þegar fimm hæða hús, sem verið var að rífa í borginni Gvangju í Suður Kóreu, hrundi fyrirvaralaust og strætisvagn grófst undir rústunum. Á myndskeiði sem birt var í suðurkóreskum fjölmiðlum má sjá hvar strætisvagninn hverfur undir brakið þegar húsið hrynur í ógnarmiklu rykskýi.

Strætisvagninn hafði numið staðar framan við húsið þegar það hrundi. 17 manns voru í vagninum. Níu þeirra dóu og AFP-fréttastofan hefur eftir viðbragðsaðilum að hin átta hafi öll slasast alvarlega. Húsið var rýmt skömmu áður en það hrundi, þannig að enginn sem vann að niðurrifinu slasaðist eða fórst. Orsakir slyssins liggja ekki ljósar fyrir en lögregla hefur hafið rannsókn á málinu. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV