Mestu vegaframkvæmdir frá því fyrir hrun

10.06.2021 - 08:26
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Forstjóri Vegagerðarinnar segir að vegaframkvæmdir í sumar verði þær umfangsmestu frá því fyrir hrun og jafnvel yfir lengri tíma. Alls er gert ráð fyrir framkvæmdum fyrir 35 milljarða samkvæmt samgönguáætlun, 23 milljarðar fara í nýframkvæmdir og 12 til 14 milljarðar í viðhaldsverkefni.

 Meðal stærstu framkvæmda eru breytingar  á Kjalarnesi og á Suðurlandsvegi, þar sem akstursstefnur verða aðskildar enda hafa slys verið tíð á þessum vegum.

„Það er allt í lagi að segja frá því að með þessarum aðgerðum sem eru núna að koma og aðgerðum sem búið var að gera, til dæmis á Suðurlandsveginum,  í því að auka öryggi milli umferðarstraumanna, það var nú gert upphaflega með minni aðgerðum, þá hefur slysatíðni fallið gríðarlega. Auðvitað eru það öryggismálin sem vkið erum alltaf að hugsa um, það er einn stóri drifkrafturinn í vegaframkvæmdum það er að vegirnir séu greiðfærir og öruggir,“ segir Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar.

Á báðum stöðum er verið að leggja veginn í svokalað 2+1, en undirbúið þannig að auðvelt verði að breytta í 2+2 eftir því sem þörfin eykst.  Með þessu sé hægt að nýta fjármuni betur. 

Ný brú yfir Ölfusá er einnig í bígerð og reyndar framkvæmdir hafnar að hluta til því efni sem hefur fallið til vegna framkvæmda við Suðurlandsveg hefur verið nýtt í undirbúningsvinnu.

„Útboðið á brúnni er eftir og það mun fara í svokallaða einkaframkvæmd og það er langur ferill. Ég geri ráð fyrir að við byrjum hann jafnvel á þessu ári, þar sem einkaaðila verður falið að fullhanna brúna og framkvæma verkið og greiðslur til viðkomandi verða fjármagnaðar með veggjaldi.“

 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV