Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Meiri umferð nú en í fyrra og mest aukning á sunnudögum

10.06.2021 - 18:13
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Umferðin á Hringveginum, þjóðvegi 1, jókst í maí um 8,4% samanborið við sama tíma í fyrra. Hins vegar minnkaði umferð um veginn í maí 2020 svo nam tíu af hundraði sem kenna má áhrifum kórónuveirufaraldursins.

Þetta kemur fram í samantekt á vef Vegagerðarinnar og að útlit sé fyrir að umferð um hringveginn aukist alls um 8% í ár. Það er þó um það bil sex prósentum minna en var metárið 2019.

Mest jókst umferðarþunginn á Austurlandi eða um 23% en samdráttur þar um slóðir var tæp 40% í maí 2020. Í grennd við höfuðborgarsvæðið var umferð um hringveginn 5% meiri í ár en fyrir ári, sem er minnsta aukningin milli ára.

Umferð hefur aukist um 12% frá áramótum, það á við um alla daga vikunnar en þó mest á sunnudögum eða ríflega 20%.