Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

MDE krefst svara frá ríkinu um málsmeðferð 4 kvenna

10.06.2021 - 19:25
Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Mannréttindadómstóll Evrópu krefur íslenska ríkið svara um hvers vegna kærur fjögurra kvenna vegna kynferðisbrota voru felldar niður og hvort það samræmist mannréttindasáttmálanum. Lögmaður kvennanna segir að í öllum málanna séu sönnunargögn sem hefðu átt að leiða til þess að þau færu fyrir dóm. Ríkislögmaður hefur frest þar til í haust til að svara.

Níu íslenskar konur kærðu málsmeðferð íslenska réttarkerfisins í ofbeldismálum þeirra til Mannréttindadómstóls Evrópu um síðustu áramót. „Fjögur mál af þessum níu sem hafa farið út eru komin á þann stað að Mannréttindadómstóllinn hefur beint tilteknum spurningum til íslenska ríkisins. Íslenska ríkið þarf þá að svara af hverju þessi málsmeðferð brýtur ekki gegn tilteknum réttindum sem mannréttindasáttmálinn veitir,“ segir Védís Eva Guðmundsdóttir, lögmaður.

Óska eftir rökstuðningi

Mannréttindadómstóllinn birti spurningarnar til íslenska ríkisins á vef sínum í dag þar sem ríkið er beðið að rökstyðja hvers vegna málin voru felld niður; hvort konurnar hafi tæmt allar kæruleiðir sem eru í boði á Íslandi; hvort íslenska ríkið telji að rannsókn í þessum fjórum málum hafi verið í andstöðu eða samræmi við tiltekin ákvæði mannréttindasáttmálans og hvort töf á því skýrslur væru teknar af sakborningum hafi haft áhrif á málsmeðferðina. Að lokum er sérstaklega spurt út í mál Maríu Árnadóttur sem fyrndist og sagt hefur verið frá áður. 

Samkvæmt svörum frá ríkislögmanni hefur embættið frest til að svara spurningum dómstólsins til loka september. 

Konurnar níu kærðu ofbeldisbrot, nauðganir og áreitni til lögreglu en mál þeirra voru felld niður án þess að þau færu fyrir dóm. „Það eru engin önnur úrræði fyrir kærendur kynferðisbrota. Við teljum þetta vera ákveðna brotalöm í þessum málum sem fara út, málin eiga það sammerkt að í öllum málunum voru sönnunargögn sem að okkar mati voru til þess fallin að sæta sönnunarmati hjá dómstólum.“

Málin gætu náð í meðferð fyrir dómnum

Það er mikið álag á Mannréttindadómstólnum og ekki víst að mál sem fara þangað verði tekin fyrir. „Ég tel alla vega þetta vera merki um að þessi mál gætu náð áfram í málsmeðferð fyrir dómstólnum og mögulega farið þannig að það verði kveðinn upp efnisdómur í þeim á seinna stigi.“ Dómstóllinn hefur móttekið og skráð hin fimm málin en tíminn verður að leiða í ljós hvort ríkið fái sömu spurningar í þeim. 

Vilja að möguleikinn á sáttum verði ræddur

Védís segir að Mannréttindadómstóllinn hafi beint því til kærenda og íslenska ríkisins að ræða möguleika á sáttum en um þær ríkir trúnaður. „Og beinir þá til aðilanna hvort það sé grundvöllur á miskabótum vegna tiltekinnar málsmeðferðar í ríkinu eða einhver flötur til að ræða úrbætur í tilteknum málaflokkum. Svona sáttaferli eru alltaf undir þeim formerkjum að í framtíðinni verði mannréttindi virt.“

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV