Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ingebrigtsen bætti 21 árs gamalt Evrópumet

epa09260896 Jakob Ingebrigtsen of Norway reacts after winning the men's 1500m race at the IAAF Pietro Mennea Golden Gala Diamond League Meeting at Asics Firenze Marathon Stadium in Florence, Italy, 10 June 2021.  EPA-EFE/CLAUDIO GIOVANNINI
 Mynd: EPA-EFE - ANSA

Ingebrigtsen bætti 21 árs gamalt Evrópumet

10.06.2021 - 20:34
Norski langhlauparinn Jakob Ingebrigtsen sló í kvöld 21 árs gamalt Evrópumet Belgans Mohammed Mourhit í 5000 m hlaupi. Ingebrigtsen hljóp vegalengdina á 12:48,45 mín á Demantamóti í Flórens á Ítalíu.

Ingebrigtsen bar sigur úr býtum í hlaupinu á mótinu í kvöld. Hann skaut meðal annars heimsmethafanum Joshua Cheptegei frá Úganda og Eþíópíumanninum Hagos Gebrhiwet ref fyrir rass í kvöld. Tími Norðmannsins er jafntframt besti tíminn í greininni í heiminum það sem af er ári.

Evrópumetið var áður í eigu Belgans Mohammed Mourhit sett árið 2000. Belginn hljóp þá á 12:49,71 mín. Ingebrigtsen bætti því Evrópumetið um rúmlega eina sekúndu. Ingebrigtsen átti fyrir Evrópumetin utanhúss í 1500, 2000 og 3000 m hlaupum. Þá varð hann Evrópumeistari 2018 bæði í 1500 og 5000 m hlaupum. Hann fékk ekki tækifæri til að verja titla sína í fyrra, því Evrópumótið í frjálsíþróttum sem átti að halda í París 2020 var aflýst vegna kórónuveirufaraldursins.

Stefnir hátt í Tókýó

Auk þess að vinna og slá Evrópumetið, bætti Ingebrigtsen sinn persónulega árangur um næstum 13 sekúndur. Áður hafði hann hlaupið 5000 m best á 13:02,03 mín. Jakob er fæddur árið 2000 og því aðeins 21 árs. Eldri bræður hans tveir, Henrik og Filip eru líka hlauparar og allir þrír eiga það sameiginlegt að hafa orðið Evrópumeistarar í 1500 m hlaupi. Allir eru þeir svo þjálfaðir af föður sínum Gjert Ingebrigtsen.

Ingebrigtsen ætlar sér stóra hluti á Ólympíuleikunum í Tókýó sem hefjast í næsta mánuði. Frammistaða hans í Flórens í kvöld gefur honum í það minnsta góð fyrirheit. Bretinn Mo Farah, tvöfaldur Ólympíumeistari í 5000 m hlaupi stefnir aðeins á þátttöku í 10.000 m hlaupi í Tókýó. Farah hefur þó ekki hlaupið undir lágmarkstíma ennþá til að fá þátttökurétt inn á leikana. Þrátt fyrir yfirburði Farah á HM og Ólympíuleikum í 5000 og 10.000 m hlaupum á hann aðeins fjórða besta tíma Evrópubúa frá upphafi á eftir Ingebrigtsen, Mourhit og Spánverjans Mohamed Katir.

Tengdar fréttir

Frjálsar

Rekistefna er Ingebrigtsen vann 1500 metrana

Frjálsar

Heims- og Evrópumet slegin í Mónakó

Frjálsar

Ingebrigtsen hleypur til úrslita

Frjálsar

Þriðji bróðirinn sem verður Evrópumeistari