Heilbrigðisráðherra gæti fengið minnisblað fyrir helgi

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Ekkert smit greindist innanlands í gær og enginn hefur greinst utan sóttkvíar síðustu sex daga. Sóttvarnalæknir segir þetta líta vel út og margt bendi til þess að viðnámsþróttur gegn smiti sé að verða býsna góður. Hann reiknar með að skila minnisblaði um aðgerðir á landamærunum og innanlands á næstu dögum, jafnvel fyrir helgi.

Nú eru 45 í einangrun með virkt smit og 217 í sóttkví. Einn er á sjúkrahúsi.  Svo virðist sem tekist hafi að ná utanum hópsýkingu sem kom upp í síðustu viku þegar sjö smit greindust utan sóttkvíar. 

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir stöðuna ánægjulega.  „Þessi óróleiki sem kom upp fyrir tíu dögum almennt í samfélaginu, fólk fór að ferðast meira, hefur ekki skilað sér í fleiri smitum. Og þetta hópsmit sem kom upp fyrir helgi hefur heldur ekki leitt til fleiri smita. Þetta bendir til þess að það er töluverður viðnámsþróttur í samfélaginu fyrir smiti, bæði vegna bólusetninga en líka sýkingavarna einstaklinga. Þannig að það er bara mjög gleðilegt.“

Þórólfur reiknar með að skila fyrir helgi minnisblaði til heilbrigðisráðherra um aðgerðir innanlands og á landamærunum.

Hann segir að áfram verði að fara hægt en örugglega og bendir á að rúmar aðgerðir séu nú þegar í gildi.  „Við þurfum áfram að fara hægt og örugglega meðan við erum ná góðu marki í bólusetningum. Við erum alveg að komast að því. Við erum með mjög rúmar aðgerðir í gildi, rýmri en flestar aðrar þjóðir. Við erum á mjög góðum stað og eigum að halda því áfram.“
 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV