Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Gæti orðið högg fyrir mörg heimili

sigurður jóhannesson forstöðumaður hagfræðistofnunar hí
 Mynd: RÚV/Vilhjálmur Þór Guðmunds
Hætt er við því að þeir sem tóku óverðtryggt lán á breytilegum vöxtum fái högg þegar vextir taka að hækka á ný segir hagfræðingur. Afborganir gætu hækkað um tugi þúsunda á mánuði.

Seðlabankinn keyrði vexti niður í sögulegt lágmark til að dempa áhrifin af efnahagslegum áhrifum kórónuveirunnar. Við það fór fasteignamarkaður á fullt og margir notuðu lágt vaxtastig til að stækka við sig eða endurfjármagna lán sín. Obbinn af nýjum lánum undanfarið ár hafa verið óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum. 

En nú er hagkerfið að taka við sér. Seðlabankinn hefur þegar hækkað vexti um 0,25 prósentustig og bankanir fylgdu í kjölfarið með hækkunum á sínum vöxtum. Það er útlit fyrir að verðbólgan verði áfram vel yfir verðbólgumarkmiði, jafnvel þótt gengi krónunnar hafi verið að styrkjast. Þannig heldur húsnæðisverð áfram að hækka sem og laun, atvinnuleysi minnkar hratt og hrávörur á heimsmarkaði hafa snarhækkað.

Tóku lánin þegar staðan var sem best

Allt þetta þrýstir á Seðlabankann að hækka vexti og bankarnir fylgja. Og það hefur bein áhrif á almenning, ekki síst þá sem eru með óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum.

„Þannig að það getur orðið svolítið högg fyrir þá sem eru að greiða af þessum lánum. Það var reyndar svolítið búið að vara við því af því að lánin komu mjög vel út nákvæmlega eins og ástandið var í vetur, að það yrði nú kannski ekki alltaf svona. En það er högg fyrir þá sem eru óundirbúnir sem bjuggust við að vextir og verðbólga yrði áfram mjög lág,“ segir Sigurður Jóhannesson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands.

Afborganir gætu hækkað um tugi þúsunda

Hagfræðideild Landsbankans fjallar einnig um áhrif vaxtahækkana á húsnæðismarkað, en þar segir að nýleg vaxtahækkun Landsbankans sé aðeins byrjunin og því spáð að stýrivextir haldi áfram að hækka út næsta ár. Dæmi er tekið af 30 milljóna króna húsnæðislána á lægstu óverðtryggðu vöxtum. Eins prósenta hækkun á slíku láni myndi þýða að vaxtagreiðsla af slíku láni á breytilegum vöxtum hækkar um allt að 25 þúsund krónur á mánuði.