Fór sultuslakur í göngutúr

10.06.2021 - 13:52
Mynd með færslu
 Mynd: Víkingalottó
Lottóvinningshafinn sem vann tæpa 1,3 milljarða króna í Víkinglottóinu í gær tók fréttunum af mikilli ró, að sögn Halldóru Maríu Einarsdóttur markaðsstjóra hjá Íslenskri getspá. Vinningurinn er sá stærsti sem Íslendingur hefur unnið.

„Þetta er allra stærsti vinningur sem komið hefur til Íslands,“ sagði Halldóra í samtali við fréttastofu í dag. „Það er búið að hafa samband við vinningshafann og hann er búinn að heimsækja okkur. Hann var alveg furðurólegur, sultuslakur,“ sagði Halldóra.

Vinningshafinn, sem er fjölskyldufaðir á fertugsaldri, búsettur á höfuðborgarsvæðinu, hélt strax út í göngutúr þegar að hann frétti að hann hefði unnið. „Hann sagðist hafa átt erfitt með að sofna en svaf að lokum vel,“ sagði Halldóra.

Íslensk getspá býður upp á fjármálaráðgjöf, ótengda fyrirtækinu, þegar vinningurinn er stór. Halldóra segir vinningshafann hafa þáð ráðgjöfina og segir í tilkynningu frá Íslenskri getspá að hann hyggist hafa skynsemina að leiðarljósi. Vinningurinn er óvenjustór en það útskýrist af breyttu fyrirkomulagi, að sögn Halldóru.

Hámark hefur verið sett á fyrsta vinning og stækkar annar vinningur því hraðar en áður. Búast má við því að í næstu viku minnki annar vinningur töluvert og verði um það bil 270 milljónir króna.

Vinningurinn verður greiddur út að fjórum viknum liðnum og þá allur í einu.
 

 

Andri Magnús Eysteinsson