Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Fjórðungi ódýrara áfengi en hjá ÁTVR

Mynd: RÚV / RÚV
Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins tilkynnti í gær til sýslumanns þá skoðun að áfengissalinn Arnar Sigurðsson væri að brjóta lög með vefsölu sinni á áfengi. Arnar telur sig aftur á móti hafa fundið leið framhjá ÁTVR og selur áfengi samdægurs af lager sem hann heldur á Íslandi, á meðan fyrirtækið er skráð í Frakklandi og flokkast því sem erlend netverslun. 

Fjórða bjórkippan frí

Arnar segist öðru fremur stunda sína sölustarfsemi með áfengi því í henni felist mikið tækifæri til sparnaðar fyrir neytendur. Vara keypt í netverslun hans sé allt að fjórðungi ódýrari en hjá ríkinu. Hann nefnir sem dæmi að algengar bjórtegundir á borð við Stellu Artois og Peroni séu verðlagðar þannig hjá honum að sé keyptur kassi þá sé fjórða kippan í raun ókeypis.

„Verulega brjáluð sala“

Kjörin virðast falla í kramið hjá neytendum og Arnar lætur vel af viðskiptunum; þau séu margfalt á við það sem hann og samstarfsfólk hans hafi gert ráð fyrir. „Salan er alveg verulega brjáluð. Ég myndi ætla að ef fram fer sem horfir þá fer veltan á þessu ári vel á annan milljarð.“ Sem dæmi nefnir hann að fyrirtækið selji um tvö bretti af bjór á dag.

Sölukippur við yfirlýsingar ÁTVR

Þá virðist honum sem neytendur séu honum vilhallir andspænis ÁTVR því hvenær sem ríkið setji einhverjar yfirlýsingar fram þá komi kippur í söluna.
Arnar segist vissulega vonast til þess að reksturinn skili inn einhverri afkomu en hann sé án alls vafa að skila neytendum ábata.