Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Fjöldahandtökur frá því vopnahlé tók gildi

10.06.2021 - 21:55
epa09260487 Israeli police arrest a Palestinian activist during a protest against the visit ofIsraeli far-right member of (Otzma Yehudit) party and the Knesset (parliament) Itamar Ben-Gvir, to  Damascus gate of Jerusalem’s old city, on 10 June 2021.  EPA-EFE/ATEF SAFADI
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Minnst þrír Palestínumenn voru drepnir í áhlaupi Ísrelshers í borginni Jenín á Vesturbakkanum undir morgun. Ísraelska lögreglan hefur handtekið fleiri en tvö þúsund á Vesturbakkanum og í Jerúsalem síðan vopnahlé Hamas og Ísraelshers tók gildi í maí.

Þrjár vikur eru síðan samið var um vopnahlé milli Hamas og Ísraelshers eftir að sprengjum hafði rignt í ellefu daga. En það þýðir ekki að allt sé með kyrrum kjörum. Undir morgun gerði hersveit Ísraelshers áhlaup í borginni Jenín á Vesturbakkanum og voru minnst þrír drepnir. Þar af tveir palestínskir leynilögreglumenn. Þetta hefur aukið enn á spennuna. Síðustu vikur hafa fleiri tvö þúsund Palestínumenn verið handteknir, í aðgerð sem ísraelska lögreglan kalla operation law and order eða lög og regla. Samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni er það gert til að koma óeirðaseggjum bak við lás og slá. Palestínumenn segja hins vegar að lögreglan handtaki friðsamlega mótmælendur og í raun nánast hvern þann sem á vegi þeirra verður. Á meðal þeirra sem hafa mátt dúsa í fangelsi um tíma eru systkinin Mohammed og Mona El-Kurd. Þau ólust upp í hverfinu Sheikh Jarrah í Jerúsalem og hafa barist gegn því að fjölskylda þeirri verði rekin af heimili sínu til að rýma fyrir ísraelsku landtökufólki.

Þá var Givara Budeiri fréttamaður Al Jazeera handtekin fyrr í vikunni þar sem hún var við störf í Sheikh Jarrah en henni var sleppt nokkrum klukkustundum síðar. Budeiri segir að handtakan hafi verið afar harkaleg. Hún þurfti að fá aðhlynningu á spítala og þar kom í ljós að vinstri hönd hennar var brákuð.

Tilraun til að stjórna umræðunni

Að minnsta kosti fjórtán fjölmiðlamenn hafa verið handteknir síðustu vikur og mörgum hefur verið bannað að koma nálægt Sheikh Jarrah. Budeiri segir að sér hafi verið sleppt gegn því að hún haldi sig frá hverfinu í 15 daga. Barbara Trionfi, framkvæmdastjóri alþjóðlegra samtaka sem standa vörð um fjölmiðlafrelsi, segir í viðtali við Al Jazeera að þau merki aukningu á árásum á blaðamenn í Austur-Jerúsalem síðustu vikur. „Það er ráðist á fjölmiðlafólk reglulega og það áreitt. Og það er augljós tilraun til þess að stjórna umræðunni og skapa hræðslu meðal sjálfstætt starfandi blaðamanna. Vitaskuld hefur ekki verið auðvelt að fjalla um svæðið árum saman en ástandið núna hefur skapað enn meiri hættu,“ segir Trionfi.