Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Fjögurra mánaða fangelsi fyrir að slá Macron forseta

10.06.2021 - 16:54
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - YouTube
Karlmaður á þrítugsaldri var í dag dæmdur í eins og hálfs árs fangelsi, þar af fjórtán mánuði skilorðsbundna, fyrir að veitast að Emmanuel Macron Frakklandsforseta og slá hann utan undir. Atvikið gerðist á þriðjudag þegar forsetinn var í heimsókn í þorpi í Suður-Frakklandi.

Maðurinn hefur verið í gæsluvarðhaldi frá því að hann veittist að forsetanum. Hann byrjar strax að afplána refsinguna. Hann átti allt að þriggja ára fangelsi og 45 þúsund evra sekt yfir höfði sér fyrir að ráðast á opinberan embættismann. Fyrir rétti í dag kvaðst maðurinn hafa brugðist við án umhugsunar þegar Macron forseti stóð skammt frá honum og heilsaði upp á þorpsbúa. 
 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV