Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Fimm matvöruverslanir mega selja lausasölulyf

10.06.2021 - 10:39
Mynd með færslu
 Mynd:
Fimm verslanir á landsbyggðinni hafa fengið undanþágu til sölu tiltekinna lausasölulyfja eins og Panódíl, Íbúfen, Lóritín og Histasín og sala hófst á lyfjunum í Krambúðinni á Flúðum og Laugarvatni og Kjörbúðinni á Fáskrúðsfirði nú í vikunni. Aðrar verslanir sem hafa undanþágu eru Hríseyjarbúðin og Búðin Borgarfirði.

Samkvæmt nýjum lyfjalögum sem tóku gildi 1. janúar er að finna ákvæði sem segir að Lyfjastofnun sé heimilt að veita undanþágu frá þeirri meginreglu að lyf megi aðeins selja almenningi á grundvelli lyfsöluleyfis. Ákvæðið, sem heimilar þessa undanþágu, hefur ekki áður verið til staðar í lögum. 

Aðeins til að bregðast við aðstæðum á landsbyggðinni

Heimild Lyfjastofnunar til að veita þessa undanþágu er aðeins notuð til að bregðast við sérstökum aðstæðum á landsbyggðinni.

Samkvæmt upplýsingum frá Lyfjastofnun má aðeins veita undanþágu þar sem ekki er starfrækt apótek eða lyfjaútibú. Til að heimilt sé að selja tiltekin lausasölulyf í almennri verslun þurfa að vera minnst 20 kílómetrar í næsta apótek eða lyfjaútibú. Lyfjastofnun skilgreinir hvaða lyf almennar verslanir mega selja samkvæmt undanþágunni og í hvaða styrkleika og hvers kyns pakkningum. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV