Eyþóra enn meidd en heldur í vonina með ÓL

epa05924131 Eythora Thorsdottir of the Netherlands performs on the floor during the 2017 Artistic Gymnastics European Championships at the Polivalenta Sports Hall in Cluj-Napoca, Romania, 23 April 2017. Thorsdottir won the bronze medal.  EPA/MIRCEA ROSCA
 Mynd: EPA

Eyþóra enn meidd en heldur í vonina með ÓL

10.06.2021 - 16:10
Fimleikakonan Eyþóra Elísabet Þórsdóttir getur ekki tekið þátt í úrtökumóti fyrir Ólympíuleikana í Tókýó um helgina. Hún segist í færslu á samfélagsmiðlum vera að jafna sig eftir meiðsli. Hún hafi þó ekki gefið Ólympíuleikana upp á bátinn.

Eyþóra hefur búið í Hollandi meira og minna alla sína ævi og keppir undir merkjum Hollands. Hún er þó líka með íslenskt ríkisfang, enda báðir foreldrar hennar íslenskir. Þá talar hún ágæta íslensku og hefur tekið íslenskum fjölmiðlum opnum örmum þegar þeir hafa leitað eftir viðtölum við hana á síðustu árum. Eyþóra keppti meðal annars á Ólympíuleikunum í Ríó de Janeiro í Brasilíu 2016 og komst þar í úrslit í liðakeppni með Hollandi.

Hún setti fyrir löngu stefnuna á Ólympíuleikana í Tókýó og var meðal annars með hollenska liðinu sem tryggði sér fyrir nokkru síðan sæti í liðakeppni fimleikanna. En það þarf að berjast um sæti í liðinu og fyrir þátttökurétti einstaklinga á leikunum. Fram undan eru tvö úrtökumót fyrir leikana og það fyrra er um helgina. Þar mun Eyþóra ekki keppa að því er fram kemur í færslu hennar á samfélagsmiðlum í dag. Hún ætli að jafna sig betur á meiðslum sínum og stefnir á að keppa á síðara úrtökumótinu fyrir Ólympíuleikana sem verður seinna í júní.