„Ég hefði viljað meiri stuðning en nú það er of seint“

Mynd með færslu
 Mynd: - - Facebook

„Ég hefði viljað meiri stuðning en nú það er of seint“

10.06.2021 - 10:23
Júdókappinn Sveinbjörn Jun Iura féll út í fyrstu umferð á heimsmeistaramótinu í júdó í Búdapest í Ungverjalandi í gær en mótið var síðasta tækifæri Sveinbjörns til að vinna sér keppnisrétt inn á Ólympíuleikana í Tókýó. Sveinbjörn smitaðist af COVID-19 í vor og segir það svekkjandi að afreksíþróttafólk hafi ekki mætt meiri skilningi heilbrigðisyfirvalda.

Sveinbjörn Jun Iura hefur verið einn fremsti júdómaður landsins um árabil. Hann stefndi að því að komast á Ólympíuleikana í Tókýó í sumar og hefur hann því síðustu mánuði reynt að styrkja stöðu sína á heimslistanum með því að keppa á alþjóðlegum mótum. Á einu slíku móti í vor smitaðist Sveinbjörn af COVID-19 og var HM í Búdapest í gær fyrsta mót hans eftir veikindin.

„Ég dróst á móti Kóreumanni, gríðarlega sterkum Kóreumanni. Ég fór í þetta mót bara mjög óundirbúinn eftir COVID-19 smit. Þetta var bara eini möguleikinn minn til að ná þátttökurétti inn á Ólympíuleikana. Ég fór bara svolítið kaldur inn í þetta mót og tapaði á móti honum í fyrstu umferð. Ég reyndi bara að gera mitt besta. En ég var í rauninni nýkominn úr öllum pakkanum, einangrun og öllu, og maður varð slappur eftir hana. Ég var bara engan veginn á staðnum líkamlega, þó andinn hafi verið til staðar,“ segir Sveinbjörn í samtali við RÚV í dag.

Áður en Sveinbjörn smitaðist af kórónaveirunni átti hann enn góðan möguleika á að vinna sér inn keppnisrétt á Ólympíuleikunum. Mörg alþjóðleg mót voru fram undan og hann var því með þétta keppnisdagskrá. 

„Ég missi þarna af þremur gríðarlega mikilvægum mótum og öll mótin teljast til Ólympíuleika. Þegar maður fær svona smit og fer í einangrun að þá missir maður dampinn. Það er svolítið erfitt að rífa sig upp úr þessu, þetta er stórt högg. Mér var byrjað að ganga vel á mótinu sem ég smitaðist á, ég var á góðri siglingu og svo fæ ég þetta högg.“

Aðeins einn íslenskur íþróttamaður er búinn að vinna sér inn keppnisrétt í Tókýó. Það er sundmaðurinn Anton Sveinn McKee. Fyrr á árinu kallaði afreksíþróttafólk á Íslandi eftir meiri skilningi heilbrigðisyfirvalda enda nánast eina leiðin fyrir afreksíþróttafólk til að vinna sér þátttökurétt á leikunum að keppa á mótum erlendis. Þar getur áhættan á COVID-19 smiti verið mikil eins og Sveinbjörn þekkir mæta vel sjálfur.

„Í heildina er þetta fjögurra ára pakki. 2019 að þá ferðaðist ég til 18 landa. Þetta eru bara búin að vera endalaus ferðalög. Ég fór á öll þessi mót jákvæður. Þegar ég fékk COVID-19 að þá fattaði ég eftir á, það er of seint að fá bólusetningu. „Ég hefði viljað meiri stuðning en nú það er of seint. Þetta var gríðarlega mikilvægur tími núna, lokaspretturinn. Það hefði þurft að bregðast við fyrr. Ég er ekki búinn að vera eðlilegur eftir að ég fékk COVID-19. Ég veit ekki hvað ég get sagt. En ég reyndi mitt besta í þessu ferli og ég er ekkert að berja mig of mikið niður.“

Tengdar fréttir

Íþróttir

Sveinbjörn úr leik

Íþróttir

Íslenskt afreksíþróttafólk kallar á hjálp

Íþróttir

Sveinbjörn með kórónuveiruna