COVID-19 setur örlítið strik í G!Festival

Mynd með færslu
 Mynd: flickr.com

COVID-19 setur örlítið strik í G!Festival

10.06.2021 - 23:04

Höfundar

Þrátt fyrir að ekkert útlit sé fyrir að fresta þurfi tónlistarhátíðinni G! Festival í Færeyjum hefur kórónuveirufaraldurinn áhrif á hverjir koma þar fram. Hátíðin verður haldin í Götu á Austurey dagana 15. til 17. júlí næstkomandi. 

G! Festival er þekktasta tónlistarhátíð Færeyja og hefur vaxið að umfangi frá því hún var fyrst haldin árið 2002. Um þúsund miðar voru í boði það árið. Hátíðin var alveg slegin af í fyrra vegna faraldursins.

Fyrr í vikunni tilkynntu skipuleggjendur að nokkrir erlendir listamenn gætu ekki heimsótt Færeyjar af COVID-tengdum ástæðum. Því missa gestir hátíðarinnar af því að sjá og heyra í sænska tónlistarmanninum José Gonzales, hinum ísraelska Asaf Avidan, og frönsku plötusnúðunum og tónlistarmönnunum Busy P. og MYD.

Til stendur að fá þá til að taka þátt í hátíðinni að ári en fjölmargar tónlistarhátíðir hafa verið í sömu sporum og Færeyingarnir nú vegna ferðatakmarkana tengdum faraldrinum.

Talsmaður hátíðarinnar segir ómögulegt fyrir þessa listamenn að heimsækja eyjarnar vegna sóttvarnarreglna, eins að eitthvað gæti gerst í þróun faraldursins sem breytt geti öllum áformum en kveðst jafnframt vongóður um að það versta sé að baki og að leiðin verði greið að halda hátíðina.

Færeyska söngkonan Eivør Pálsdóttir er meðal þeirra sem koma fram á hátíðinni í ár, sænska rokksveitin Katatonia og barkasöngsveitin Huun-Huur-Tu frá rússneska lýðveldinu Tuva við landamæri Mongóliu.

Sveitin sú tróð upp í NASA á Listahátíð árið 2005. Söngvarinn Auður er einnig skráður meðal gesta hátíðarinnar en ekki liggur fyrir hvort af því verður. 
Fjölmargir íslenskir listamenn á borð við Mugison, FM Belfast, Vök og Reykjavíkurdætur hafa troðið upp á G!Festival í gegnum tíðina. 

 

Tengdar fréttir

Stjórnmál

Ýmsum menningarviðburðum frestað í Færeyjum um helgina

Stjórnmál

Sóttvarnareglur ekki hertar í Færeyjum að sinni

Innlent

Þórólfur segir Færeyjar vera víti til varnaðar