Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Bóluefni verja jafn vel gegn alvarlegum COVID-veikindum

10.06.2021 - 19:00
Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist / RÚV
Öll bóluefni sem notuð eru hérlendis verja jafn vel gegn alvarlegum veikindum af völdum COVID. Tilkynningar um 23 andlát í kjölfar COVID-bólusetningar hafa borist Lyfjastofnun

Engin sönnun fyrir að veikindi séu af völdum bóluefnis

Tilkynningarnar segja þó ekkert um orsakasamhengi milli andláts og bólusetningar, segir yfirlæknir stofnunarinnar. Lyfjastofnun ætlar framvegis að birta vikulega upplýsingar um alvarleg tilvik í kjölfar bólusetninga. Daglega eru þó tölur uppfærðar á vef stofnunarinnar. 

Í tilkynningu stofnunarinnar í fyrradag kemur fram að ein alvarleg tilkynning hefur borist í kjölfar Janssen-bólusetningar og varðar hún sjúkrahúsvist. 
Tólf alvarlegar tilkynningar hafa borist í kjölfar Moderna-bólusetningar þar af ein er varðar lífshættulegt ástand.
Fjörutíu og tvær alvarlegar tilkynningar hafa borist í kjölfar AstraZeneca-bólusetningar. Þrjár varða andlát. Tveir þeirra sem létust voru með staðfesta undirliggjandi sjúkdóma. 
Flestar tilkynningar í kjölfar bólusetningar hafa borist vegna Pfizer/BioNTech eða 45. Þar af varða 20 tilkynningar andlát. Sextán hinna látnu voru eldri en 75 ára og flest með undirliggjandi sjúkdóma. Hinir fjórir voru á aldrinum 60-74 ára og þrír þeirra voru með staðfestan undirliggjandi sjúkdóm. 

„Þetta er grunur um alvarlega aukaverkun í fyrsta lagi. Þetta er engin sönnun þess. Þetta er eitthvað sem gerist í tengslum við bólusetninguna,“ segir Kolbeinn Guðmundsson yfirlæknir Lyfjastofnunar. 

Skýring fleiri andláta eftir Pfizer er að elsta fólkið fékk það

„Þar líta tölurnar kannski skringilega út þegar menn horfa á Pfizer tölurnar með mörg andlát. En það er náttúralega skýring á því að þar voru elstu sjúklingarnir, einstaklingarnir, bólusettir til að byrja með sem að margir hverjir væntanlega dóu af eðlilegum ástæðum. Þannig að tilkynningin hefur ekkert með orsakasamhengi að gera.“

Kolbeinn er fulltrúi Lyfjastofnunar í vísindahópi Lyfjastofnunar Evrópu sem fjallar um virkni og öryggi allra lyfja og bóluefna. Og eins og nærri má geta hafa verið stöðugir fjarfundir í þeim hópi síðustu misseri. Hann er mjög ánægður með hvað fólk er duglegt að tilkynna aukaverkanir

Pfizer virkar kannski betur við vægum einkennum en Janssen - bæði virka jafnvel við alvarlegum

Margir hafa líklega heyrt undanfarnar vikur nú þegar bólusetningar hafa staðið sem hæst að það sé nú betra að fá til dæmis Pfizer því virkni sé 95% heldur en Janssen sem er með 66% virkni. 

„Þarna erum við að bera saman sem sagt virknina á að hindra að þú fáir einhver einkenni. Það sem að öll þessi bóluefni gera jafnvel er að þau hindra alvarlegan sjúkdóm.“

Kolbeinn segir að kannski sé meiri hætta á vægum einkennum hafi maður verið útsettur fyrir COVID hafi maður fengið Janssen-bólusetningu en ekki Pfizer.

„Þú ert alveg jafn örugg og það er það sem þjóðfélagið vill og það er þess vegna sem við eru að þessu. Þú ert alveg jafn örugg að verða ekki alvarlega veik af COVID.“