Bandaríkin sögð gefa 500 milljónir bóluefnaskammta

epa09254381 A woman takes a selfie as a health official administers the COVID-19 vaccine at a non-hospital vaccination facility in a shopping mall in Bangkok, Thailand, 08 June 2021. Thailand continues vaccinating its citizens as well as foreigners residing in the country, both in hospitals and in non-hospital vaccination venues set up in order to help speed up vaccinations against COVID-19.  EPA-EFE/DIEGO AZUBEL
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Bandaríkin hyggjast kaupa 500 milljónir bóluefnaskammta gegn COVID-19, og gefa til efnaminni landa vítt og breitt um heiminn. Þetta er fullyrt í Washington Post og New York Times, sem hafa eftir ónafngreindum heimildarmönnum að Joe Biden ætli að tilkynna þetta formlega á ráðstefnu G7-ríkjanna sem hefst í Bretlandi á morgun.

Þrýst á ríku löndin að hjálpa hinum sem minna eiga

Í Bandaríkjunum er yfir helmingur þjóðarinnar þegar fullbólusettur og fjöldi smita, sjúkrahúsinnlagna og dauðsfalla hefur þar af leiðandi hrapað. Þrýst hefur verið á Bandaríkin, Evrópusambandið og önnur auðug ríki heims að leggja miklu meira af mörkum til alþjóðlegs bóluefnasamstarfs en gert hefur verið. Þrátt fyrir fögur fyrirheit þessara ríkja um annað þá hefur til þessa einungis um eitt prósent bóluefna gegn COVID-19 ratað til fátækari ríkja heims.

Í frétt AFP segir að Biden hafi ýjað að því sem til stendur rétt áður en hann lagði af stað til Bretlands í gærkvöld. Aðspurður hvort hann hefði einhverja bólusetningaráætlun fyrir heiminn uppi í erminni jánkaði hann því. „Ég er með slíka áætlun og ég á eftir að greina frá henni,“  sagði forsetinn.

200 milljónir á þessu ári og 300 á þvi næsta

Samkvæmt heimildum stórblaðanna tveggja hafa bandarísk stjórnvöld samið um kaup á 500 milljónum skammta af bóluefni Pfizer-Biontech á verði sem gildir fyrir óhagnaðardrifna starfsemi. Fyrstu 200 milljónirnar verða keyptar og sendar viðtakendum á þessu ári og 300 milljónir til viðbótar á næsta ári. Rúmir 2,2 milljarðar bóluefnaskammta gegn COVID-19 hafa þegar verið gefnir í heiminum öllum, samkvæmt gögnum Johns Hopkins háskólans í Maryland.