Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

UNICEF vill bóluefni fyrir alla

Mynd með færslu
 Mynd: Arnar Páll Hauksson
Framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi segir algjörleg óásættanlegt að innan við 1% af bóluefni gegn COVID-19 hafi skilað sér til efnaminni ríkja. Átakið Komum bóluefnum til skila hófst í dag. 

Með yfirskriftinni Komum því til skila vill UNICEF minna á að það sé ekki aðeins siðferðislega rétt heldur einnig hagur allra að tryggja öllum íbúm heimsins aðgang að bóluefni.

„Við erum auðvitað bara komin í fjáröflun til að tryggja að við komum þeim bóluefnum sem eru til til skila til fátækari ríkja heimsins,“ segir Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi. 

Alþjóðaheilbrigðisstofunin þreytist ekki á því að kalla eftir jafnari dreifingu á bóluefni en virðist tala fyrir daufum eyrum. 

„Þetta er auðvitað algjörlega óásættanlegt. Við búum hérna í ríkari heiminum og blessunarlega er bólusetningum að ljúka hérna á Íslandi,“ segir Birna.

„En af 1,8 milljarði skammta sem er búið að dreifa af bóluefni gegn COVID í heiminum þá hefur innan við 1% farið til fátækari ríkja heimsins. Og við vitum það að COVID er ekki búið fyrr en allir eru komnir í skjól.“

Bóluefni enn í dreifingu árið 2024

Sameinuðu þjóðirnar áætla að ef fram heldur sem horfir þá verði enn verið að dreifa bóluefni út árið 2024. UNICEF hefur sent út alþjóðlegt ákall þar sem skorað er á efnameiri ríki að gefa sína umfram skammta.

„Núna búum við einfaldlega við bóluefnafátækt. Það er ekki til nóg af skömmtum til að dreifa. Og þess vegna er ákall UNICEF að G7 ríkin gefi 20% af sínum skömmtum.“

Birna segir ríkin geta haldið áfram sínum áætlunum. „En það tryggir þann skammtafjölda sem upp á vantar, um 190 milljónir skammta sem vantar ennþá í covaxið. Og þá á ennþá eftir að dreifa þeim. Og þar kemur UNICEF til sögunnar.“

COVAX-samstarfið á að tryggja að minnsta kosti fimmtungi íbúa fátækra ríkja aðgang að bóluefni. Um 78 milljónir skammta hafa skilað sér í gegnum það og þurftu 126 ríki að skipta þeim á milli sín. 

„En þarna er verið að tryggja allavega framlínustarfsfólk. Sérstaklega í heilbrigðis og félagsþjónustu og viðkvæmustu hópana. Til þess að tryggja að atriði eins og reglubundnar bólusetningar barna geti farið af stað á ný.“