Þingfundur frestast vegna vandamála með kosningakerfi

09.06.2021 - 13:27
Mynd með færslu
 Mynd: Alþingi
Fresta þurfti þingfundi skömmu eftir að hann hófst stundarfjórðung yfir eitt í dag. Kosningakerfi Alþingis virkaði ekki sem skyldi og þar sem hefja átti fundinn á atkvæðagreiðslum þótti best að fresta fundi.

„Kerfið er eitthvað í lamasessi þannig að forseti ætlar að grípa til þess gamla góða ráðs að biðja þá að gefa merki og rétta uppi hönd sem samþykkja afbrigði við tillögunum,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, þegar kom í ljós að kosningakerfið virkaði ekki. Nokkur þingmál voru það seint fram komin að þingheimur þurfti að samþykkja sérstaklega að taka þau fyrir.

Forseti hallaði sér svo fram og til hliða til að reyna að koma auga á þingmenn þar sem þeir greiddu atkvæði. Eftir smá stund var ljóst hvernig þingmenn höfðu greitt atkvæði og alla jafna hægt að halda áfram með dagskrána. Fyrsti dagskrárliður var atkvæðagreiðsla um hvort nokkur frumvörp skyldu ganga til þriðju og síðustu umræðu á Alþingi. Steingrímur sagði að það gæti reynst tímafrekt að kjósa með handaupplyftingum, sérstaklega þar sem ekki sæist til allra þingmanna úr forsetastól. Því frestaði hann þingfundi um stundarfjórðung, til hálf tvö.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV