Rafmagn komið á alstaðar nema í Kelduhverfi

09.06.2021 - 03:40
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Á Norðausturlandi er rafmagn komið aftur á alstaðar nema í Kelduhverfi og hluta Öxarfjarðar. Vonast er til að það komist fljótlega á þann hluta Öxarfjarðar sem út af stendur, en lengra er í að straumur komist á Kelduhverfið. Þangað þarf að flytja ljósavél og mun það taka einhverjar klukkustundir, samkvæmt upplýsingum frá svæðisvakt Rarik á Norðausturlandi.

Aðalspennir í aðveitustöð eyðilagðist

Rafmagn fór af stóru svæði á Norðausturlandi um klukkan ellefu í gærkvöld þegar aflspennirinn í aðveitustöðinni í Lindarbrekku eyðilagðist. Samkvæmt svæðisvaktinni nyrðra hefur „eitthvað mikið gengið á“ því aðalspennirinn er ónýtur og allar sjáanlegar tengingar út frá honum brunnar. Orsökin er óþekkt, en útilokað er að þetta hafi gerst af mannavöldum.

Við þetta fór rafmagn af Kelduhverfi,Öxarfirði, Kópaskeri, Raufarhöfn, Þistilfirði, Þórshöfn og Bakkafirði. Varaafl var keyrt upp á Raufarhöfn og Þórshöfn. Það var svo tekið út um þrjúleytið, þegar tekist hafði að tengja Kópaskerslínu Landsnets framhjá Lindarbrekkustöðinni og koma þannig rafmagni til allra notenda nema í Kelduhverfinu og hluta Öxarfjarðar.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV