Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Óvenjulitlar kröfur gerðar til nýs alzheimer-lyfs

09.06.2021 - 08:20
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Þekkingu á því hvað veldur alzheimer hefur fleygt fram á síðustu tuttugu árum og talið er að nýja lyfið Aducanumab, sem fékk markaðsleyfi hjá Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna á mánudag, marki tímabót í baráttunni við sjúkdóminn. Þetta segir Steinunn Þórðardóttir, öldrunarlæknir, í viðtali í Morgunvaktinni á Rás 1. Óvenjulega litlar kröfur hafi verið gerðar til lyfsins áður en leyfið var samþykkt.

„Það er vegna þess að það er bara búið að viðurkenna að það er ákveðin örvænting varðandi alzheimer-sjúkdóm í heiminum, eins og gefur að skilja. Það hefur ekkert komið fram á öllum þessum tíma sem getur ráðist að rótum þessa sjúkdóms. Við erum öll að eldast að minnsta kosti í vestrænum samfélögum. Helsti áhættuþáttur sjúkdómsins er hækkandi aldur þannig að við sjáum fram á holskeflu á næstu árum og hann er mjög þungbær sjúkdómur eins og þeir sem þekkja til vita, og eins gríðarlega dýr fyrir samfélagið. Þannig að það bara verður eitthvað að fara að gerast og þau voru opin fyrir því þarna úti að hoppa á þennan vagn, því þetta er bara það sem er langmest lofandi,“ segir hún. 

Steinunn segir að það hafi verið magnað að vakna á mánudaginn og fá þær fréttir að lyfið hafi verið samþykkt. Nokkuð langt sé síðan upplýsingar komu fram um að efnið gæti virkað gegn alzheimer, en biðin eftir lyfinu hafi verið löng. Hún segir það mjög vel þekkt í lyfjageiranum hversu erfitt er að þróa lyf sem hafa áhrif á miðtaugakerfið. Heilinn sé vel varinn og erfitt að komast inn í hann með lyf. Því þurfi að hanna þau sérstaklega svo þau virki á hann.

„Það hefur ekki verið alveg ljóst á hvaða skotmark á að miða, og það er reyndar ekkert alveg ljóst ennþá, þótt að þetta lyf sé komið á markað. Þetta lyf og þróun þess ætti að minnsta kosti að gefa okkur upplýsingar um það hvort við séum að miða á rétt skotmark, og hvað það er sem veldur þessum sjúkdómi,“ segir Steinunn.