Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Miklar endurbætur á Silfrastaðakirkju

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Miklar endurbætur eru nú hafnar á Silfrastaðakirkju í Skagafirði, sem er bæði sigin og illa farin af fúa. Áætlað er að viðgerðin taki fimm ár og kosti fimmtíu milljónir króna.

María Stefanía Jóhannsdóttir, formaður sóknarnefndar Silfrastaðakirkju, hefur opnað kirkjudyrnar af ýmsu tilefni, en þessa dagana á hún annað erindi en venjulega.

Fimm ára verkefni fyrir söfnuðinn

Þessi litla áttstrenda kirkja hefur mikið látið á sjá síðustu ár. „Hún er náttúrulega mikið sigin og fúin og turninn alveg ónýtur,“ segir María. Kirkjan er friðuð og var reist árið 1896. Söfnuðurinn fékk hæsta styrk sem Húsfriðunarsjóður veitir til friðaðra kirkna í ár, eða fimm milljónir króna. Það er þó aðeins einn tíundi af viðgerðarkostnaði. „Þetta er fimm ára verkefni fyrir söfnuðinn að gera sitt allra besta og við erum öll tilbúin í það stóra verkefni.“

Mynd með færslu
 Mynd: Dalla Þórðardóttir
Turninn fjarlægður af kirkjunni

Síðasta athöfnin í bili var ferming á hvítasunnudag

Síðasta athöfn fyrir viðgerðirnar var ferming á hvítasunnudag og nú þarf að tæma kirkjuna. „Fjarlægja allt úr kirkjunni núna, sem sagt alla muni, og koma því í geymslu. Orgeli, altari og bekkjum,“ segir María. Það er búið að hífa turninn af og hann er kominn í viðgerð hjá verktaka sem sér um stærsta hluta viðgerðanna. Þá er byrjað að fjarlægja glugga sem eru úr járni og verða notaðir aftur. Klæðning verður fjarlægð af veggjum og svo verður kirkjan hífð af grunninum og gert við fótstykki og burðargrind.

„Það er gaman að hittast hérna og vinna þessi verkefni“

María segir ánægjulegt að fá að taka þátt í að bjarga kirkjunni frá frekari skemmdum. „Það er gaman að hittast hérna og vinna þessi verkefni, sem við megum og getum. En auðvitað er vel fylgst með okkur, að við skemmum ekkert.“

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV