Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Lánsamur íslenskur lottóspilari 1271 milljón ríkari

Mynd með færslu
 Mynd: Víkingalottó
Annar vinningur í Víkinglottói kvöldsins sem nemur 1.270.806.970 krónum féll lánsömum Íslendingi í skaut. Í tilkynningu frá Íslenskri getspá segir að þetta sé langhæsti vinningur sem nokkru sinni hefur komið til Íslands.

Þessi vinningur er um fimm sinnum hærri en sá næststærsti hingað til. 

Fjárhæðin er margfalt hærri en venjulega vegna kerfisbreytinga sem gerðar voru til að auka líkur á stórum vinningum. Þetta er fyrsti útdrátturinn samkvæmt nýju reglunum.

Annar vinningur í Víkinglottó hefur hingað til hlaupið á nokkrum tugum milljóna króna og hefði fyrir reglubreytingar numið um 70 milljónum samkvæmt upplýsingum frá Íslenskri getspá.

Hæsti vinningur getur að hámarki orðið um 3,6 milljarðar króna og því voru verulegar fjárhæðir færðar yfir á annan vinning. Vitað er hver vinningshafinn er og haft verður samband við hann símleiðis að sögn Péturs Hrafns Sigurðssonar upplýsingafulltrúa Getspár. 

„Allir á skrifstofunni verða mjög glaðir þegar háir vinningar berast til Íslands en þessi slær allt út. Aldrei er að vita nema keypt verði kaka á morgun fyrir starfsfólkið í tilefni þess að vinningur kom hingað.“

Nýbakaði milljarðamæringurinn keypti miðann á lotto.is en í tilkynningu færir Íslensk getspá vinningshafanum hamingjuóskir og kveðst vonast til að geta sent frá sér nánari fréttir um málið síðar.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV