Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Halla Þórlaug hlýtur verðlaun fyrir Þagnarbindindi

Maístjörnuna fyrir ljóðabók ársins 2020 hlýtur Halla Þórlaug Óskarsdóttir fyrir bókina Þagnarbindindi.
 Mynd: - - Landsbókasafn

Halla Þórlaug hlýtur verðlaun fyrir Þagnarbindindi

09.06.2021 - 15:04

Höfundar

Maístjörnuna fyrir ljóðabók ársins 2020 hlýtur Halla Þórlaug Óskarsdóttir fyrir bókina Þagnarbindindi.

Rithöfundasamband Íslands og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn veita verðlaun fyrir ljóðabók sem kom út á árinu 2020. Verðlaunin, sem bera heitið Maístjarnan, voru afhent í fimmta sinn við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðunni 8. júní.

Verðlaunin í ár hlýtur Halla Þórlaug Óskarsdóttir fyrir bókina Þagnarbindindi. Í umsögn dómnefndar segir meðal annars að bókin sé áhrifarík ljóðsaga, sem sverji sig í ætti við verk frá síðasta áratug þar sem konur skrifi á hugdjarfan og hispurslausan hátt um erfiða reynslu. „Hér tekst skáldið meðal annars á við ástarsorg, móðurmissi og móðurhlutverkið og nær að draga upp margræða mynd af reynsluheimi ungrar konu sem er að stíga inn í fullorðinsárin og takast á við áföll og samskiptaerfiðleika. Útkoman er eftirminnileg bók sem sker sig úr, þökk sé eftirminnilegu myndmáli, óvenjulegri byggingu og frumlegum texta sem rambar á mörkum dagbókarskrifa, brotakenndrar frásagnar, ljóðtexta og ritgerðar.“

Halla Þórlaug hefur starfað sem dagskrárgerðarmaður á Rás 1. Fyrir ljóðsögu sína Þagnarbindindi hlaut Halla nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta árið 2020. Hún hefur einnig samið verk fyrir leiksvið og útvarp.

Gjaldgengar voru allar útgefnar íslenskar ljóðabækur ársins 2020 sem skilað var í skylduskil til Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og fékk dómnefnd þær til umfjöllunar. Dómnefnd skipa Sverrir Norland fyrir hönd Rithöfundasambandsins og María Logn Kristínardóttir Ólafs­dótt­ir fyrir hönd Landsbókasafnsins.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Jónas Reynir fær Maístjörnuna í ár

Bókmenntir

Eva Rún Snorradóttir fær Maístjörnuna

Bókmenntir

Ný ljóðaverðlaun veitt Sigurði Pálssyni