Hálendisþjóðgarður úr sögunni

09.06.2021 - 13:16
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Meirihluti umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis hefur lagt til að frumvarpi umhverfisráðherra um hálendisþjóðgarð verði vísað aftur til ráðherra. Fulltrúi Viðreisnar í nefndinni segir að með þessu sé ljóst að málið verði ekki afgreitt á yfirstandandi þingi.

Málið hefur verið mjög umdeilt bæði innan stjórnarflokkanna og milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Umhverfis- og samgöngunefnd hefur verið með það til umfjöllunar í rúma sex mánuði og bárust hátt í 200 umsagnir.

Sérstaklega er minnst á stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Óvissa hefur ríkt um afgreiðslu málsins og á fundi umhverfis- samgöngunefndar í morgun lagði Kolbeinn Óttarsson Proppé þingmaður Vinstri grænna og framsögumaður málsins fram nefndarálit með frávísunartillögur. Í álitinu kemur meðal annars fram að ekki hafi náðst sátt um málið og því verði því vísað aftur til ríkisstjórnar og umhverfisráðherra.

Hanna Katrín Friðriksson fulltrúi Viðreisnar í nefndinni segir líklegt að tillagan verði afgreidd á fundi nefndarinnar síðar í dag. Með þessu sé enn fremur ljóst að málið verði ekki afgreitt á yfirstandandi þingi.

„Þetta er fallegt orðalag yfir þegar málið dagar uppi í nefnd. Þessi frávísun þýðir efnislega ekki neitt. Það er hefð fyrir því að málum sé vísað til ríkisstjórnar eða einstakra ráðherra til gera eitthvað við. Það eru þá mál sem eru fullkláruð í nefndum. Þetta mál er ekki fullklárað og hefði raunverulega átt að daga uppi en af því að þetta er flaggskip ríkisstjórnarinnar og ekki síst Vinstri grænna þá fær það svona heiðursmeðferð sem er að vera vísað aftur heim til ráðherra,“ segir Hanna Katrín.

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV