Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Fram á nótt: Tónlistin og djammréttindi

Mynd: Anton Brink / RUV.is

Fram á nótt: Tónlistin og djammréttindi

09.06.2021 - 13:30

Höfundar

Það er skrítið að hugsa til þess í dag að djass-tónlist, sem er nú einna helst dannað áhugamál hvítra miðaldra plús-karla með margar háskólagráður, hafi eitt sinn verið villtasta djammtónlistin og djassgeggjararnir rokkstjörnur síns tíma, segir Davíð Roach Gunnarsson.

Davíð Roach Gunnarsson skrifar: 

„Hvað er þetta sem þið viljið gera? Við viljum vera frjáls, og gera það sem við viljum gera. Við viljum fokka okkur upp, og við viljum halda partí!“ Þessi upphafsorð í lauslegri þýðingu minni koma úr laginu Loaded með bresku indídans-sveitinni Primal Scream. Djamm og tónlist hafa líklega allt frá upphafi siðmenningar verið samofin fyrirbæri, enda manninum eðlislægt að leita leiða til að lyfta sér upp á annað vitundarstig, gera sér dagamun og flýja harða afkomubaráttuna. 

Tónlistin hefur fylgt manninum frá fornsögulegum tíma þegar að töfralæknar og seiðkarlar leiddu trúarathafnir undir taktföstum trumbuslætti, og djammarar þess tíma dönsuðu til að ákalla regnið og bægja burtu illum öndum. Sumir sagnfræðingar hafa fært rök fyrir því að upphaf landbúnaðarbyltingarinnar og endalok hirðingjasamfélagsins megi rekja til þess þegar mannkynininu tókst fyrst að brugga áfengi.

Og sönnunina fyrir samtvinnun tónlistar og djamms þarf ekki að sækja lengra en í orðið sjálft, en rót íslenska orðsins djamms, eða að djamma, kemur frá enska orðinu jam, sem merkir hópur fólks að spila saman á hljóðfæri.

Fram á nótt

En hvernig kemst ég inn þegar allt er orðið hljótt
þá verða menn um sinn að djamma fram á nótt.

Þetta orti hinn öðli djammari Björn Jörundur og hefur ekki litið aftur síðan. En hvers konar tónlist í síðari tíð hefur helst verið tengd við djamm og hverjar eru rætur hennar? Líklega mætti segja að helsta djammtónlistin frá upphafi tuttugustu aldar og fram á vora daga, sem einnig hefur á hverjum tíma verið vinsælasta tónlist heims, spretti upp úr jarðvegi hinna jaðarsettu og megi rekja til þeldökkra Bandaríkjamanna. Allt frá djassinum í New Orleans til blúsróta rokksins sem að Elvis stal, sálarinnar og fönksins sem hvíta diskóið sótthreinsaði, hústónlistarinnar í Chicago og teknósins í Detroid, fram að hipphoppinu sem fæddist í fátækasta hluta New York-borgar og tók síðan yfir heiminn.

Frá undirheimunum til elítunnar

Það er skrítið að hugsa til þess í dag að djass-tónlist, sem er nú einna helst dannað áhugamál hvítra miðaldra plús-karla með margar háskólagráður, hafi eitt sinn verið villtasta djammtónlistin og djassgeggjararnir rokkstjörnur síns tíma. En þannig var það á fyrri hluta tuttugustu aldar þegar djassklúbbar voru hættulegustu staðir sem þú gast farið inn á, hryggjarskekjandi ryþmarnir þóttu spilla hvítum hjartahreinum ungmeyjum, og be-bop-stjörnur eins og saxafónleikarinn Charlie Parker vöktu ekki bara athygli fyrir stórkostlega spilamennsku heldur líka eggjandi lífsstíl og krassandi eiturlyfjaneyslu.

Og talandi um eiturlyfjaneyslu þá hafa mismunandi vímuefni oft tengst tilteknum djammsenum og tónlistarstefnum órjúfanlegum böndum. Fyrstu kynslóðar djassgeggjarar eltu oft drekann eins og óðir menn, og sóttu í morfín og aðrar afurðir draumsóleyjarinnar, Moddarnir í Bretlandi sjöunda áratugarins bruddu spítt-pillur af áfergju eins og sjá má í myndinni Quadrophenia, grasreykingar hafa löngum verið partur af hipphopp-menningu og kókaínið flæddi upp í nefhol diskódansarana á Studio 54.

Ef þú ert á efninu

En stundum varð svo gríðarlega sterkt skapandi samband á milli nýrrar tónlistarstefnu og vímuefnis að hægt var að tala um symbíótískt eða gagnvirkt samband þar á milli. Eins og á síðari hluta sjöunda áratugarins þegar ofskynjunarlyfið LSD ruddi sér til rúms meðal hippahreyfingarinnar og helsta tónlistarfólks þess tíma. Það er til dæmis mikill munur á tónlist Bítlanna frá því á fyrri hluta sjöunda áratugarins og þeim síðari með plötum eins og Rubber Soul, Revolver og Srgt. Peppers, en í millitíðinni höfðu Bítlarnir komist á sýruspenann þegar tannlæknir George Harrison hafði bætt LSD út í kaffið þeirra án þeirra vitundar. Og ekkert varð aftur samt síðan.

Leitandi progg-rokk síðsjöunda til snemmáttunda áratugarins hjá sveitum eins og Grateful Dead, Jethro Tull, Doors, Pink Floyd og King Crimson er svo ekki hægt með góðu móti að slíta frá hugvíkkandi áhrifum ofskynjunarlyfja eins og LSD og sveppa. Og LSD var auðvitað eitt af því helsta sem einkenndi hið svokallaða sumar ástarinnar í Haight Asbury-hverfi San Fransisco árið 1967, þar sem hippahreyfingin átti uppruna sinn, og hverfðist um frjálsar ástir, góð djammsession og andstöðu við stríðsrekstur, og þar var eins gott að vera með eins og eitt blóm í hárinu. 

Hústónlist nemur land á Bretlandi

Annað skipti þar sem skurðpunktur nýrrar tónlistarstefnu, djamms og eiturlyfs skipti sköpum var danstónlistarbyltingin sem varð í Bretlandi á ofanverðum níunda áratugnum og upphafi þess tíunda. Eftir að diskóið mjatlaðist út úr meginstraumnum um 1980 hvarf það ekki heldur lifði góðu lífi á hommaklúbbum í New York, San Francisco og víðar, og upp úr henni spratt svo hústónlist í Chicago og teknó í Detroit um miðjan níunda áratuginn. Hústónlistin barst yfir Atlantshafið til partíeyjunnar Ibiza þar sem Bretar í sumarfríum kynntust henni og tóku með sér í hjarta heimsveldisins. Tónlistin var spiluð á klúbbum eins og Shoom, Future og Hacienda á sama tíma og vímuefnið alsæla, mdma, eða e-töflur, var að ryðja sér til rúms og varð fljótt vinsælt. Ekki síst þótti efnið auka og bæta skynjun þegar dansað var við hústónlist.

Um svipað leyti var byrjað að skipuleggja ólögleg partí utandyra eða í yfirgefnum vöruskemmum og fregnir af staðsetningu fóru manna á milli í klúbbum og í gegnum símboða og frumstæða einblöðunga, en guli broskallinn varð fljótt að einkennistákni hreyfingarinnar. Þessar reifveislur sprungu fljótt út í vinsældum og talað var um árin 1988-1989 í Bretlandi, sem The Second Summer of Love, Annað sumar ástarinnar, en hið fyrsta var að sjálfsögðu í San Francisco 1967.

Taumlaus nautnahyggja

Þetta var breið ungmennahreyfing og andspyrnumenning, counter culture, sem neitaði að láta yfirvöld ákvarða hvernig og hvenær hún mætti skemmta sér og tók málin í eigin hendur. Haldnar voru risastórar fjöldasamkomur undir berum himni þar sem tónlistin sameinaði. Þarna var að verða til ný tónlistarstefna og nýtt vímuefni og gagnvirkt samspilið þar á milli gat af sér eitthvað sem annars hefði aldrei orðið. Áherslan var á frelsi, nautnahyggju og persónulega tjáningu, og litið á reifið sem útópíu, safe space. Þar sem allir, óháð kynþætti, kyni, kynhneigð, -vitund eða -tjáningu, voru jafnir fyrir taktinum og partur af sömu alvitundinni.

 

Að lokum verðum við að minnast á ráðandi menningarafl og vinsælustu tónlistarstefnu heims undanfarna tvo áratugi eða svo, en hún varð til upp úr djammsenu og partíum í fátækasta hluta í New York-borgar á öndverðum áttunda áratugnum. Ég er að sjálfsögðu að tala um hipphoppmenninguna en upphafspunktur hennar hefur verið rakinn til partís sem jamaíski plötusnúðurinn Kool Herc hélt 11. ágúst 1973. Partí af þessum toga breiddust fljótt út í Suður-Bronx þegar fólk flúði fátækt og eymd, safnaðist saman á leikvöllum eða í yfirgefnum iðnaðarhúsnæðum, stal rafmagni úr ljósastaurum, og plötusnúðar léku hrærigraut af fönki, sálartónlist og diskói fyrir dansi, og fljótlega stigu svo rapparar, breikdansarar og graffarar fram á sjónarsviðið. Rapptónlistin var fyrst fest á segulband í kring um 1980 og er nú sú vinsælasta í heimi, en hún spratt upp úr djammi, sem hefur tengst henni órjúfanlegum böndum síðan.

Ég hef nú reynt að tæpa á nokkrum helstu tengslum djammsins og tónlistarstefna sem er langt í frá tæmandi listi, því þessi fyrirbæri hafa gengið hönd í hönd frá upphafi vega. Sama hversu mörgum sítrónum lífið kastaði í hausinn á þér gastu alltaf leitað á náðir næturinnar til að deyfa eða fresta vandamálum líðandi stundar. En auðvitað þurfti covid að skemma það eins og allt annað, með dyggum stuðningi sóttvarnalækna sem hata djammið. Nú hafa barir verið lokaðir lungan úr árinu og þegar ekki er lokað er opnunartíminn svipaður og útivistartími grunnskólabarna. 

En með ört tíðari bólusetningu og afnámi grímuskyldu fer loksins að sjá fyrir endann á þessu niðurlægingarskeiði djammsins, og vonandi fáum við endurkomu skemmtistaðasleiksins um miðbik sumarsins 2021. Leiðindapúkar eins og lögreglan og virkir í hverfisgrúppum á Facebook reyna að koma í veg fyrir endurheimt opnunartíma að covid-i loknu, en það er mikilvægt að berjast gegn þeim afturhaldsöflum með kjafti og klóm, og verja þau djammréttindi sem Beastie Boys börðust fyrir og við höfðum áunnið okkur.

Tengdar fréttir

Tónlist

Allir og Ash Walker elska sólskinið