Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Bjóða bólusettum ókeypis kannabisvefju

09.06.2021 - 06:46
epa05105377 A picture made available on 16 January 2016 of a man working in a cannabis plantation located at Colbun town rural area, 270 km south of Santiago, Chile, 11 January 2016. The biggest legal marijuana plantation in Latin American will be
 Mynd: EPA - EFE
Yfirvöld í einstökum ríkjum Bandaríkjanna hafa gripið til margvíslegra ráða til að fá fólk til að láta bólusetja sig gegn COVID-19. Eitt slíkt ráð er að bjóða fólki ókeypis jónu, eða kannabisvindling, gegn bólusetningu. Yfirvöld í Washingtonríki kynntu þetta ráð til sögunnar á mánudag.

Yfirstjórn Áfengis- og kannabisskrifstofu Washingtonríkis gaf þá grænt ljós á að rekstraraðilar löglegra kannabisverslana byðu fullveðja viðskiptavinum sínum tilbúinn kannabisvindling, að því tilskyldu að þeir létu bólusetja sig á staðnum.

Átakinu, sem Áfengis- og kannabisskrifstofan kallar Joints for jabs, eða Stuð fyrir stungur, er ætlað að efla og auglýsa bólusetningarherferð yfirvalda, segir í tilkynningu skrifstofunnar. Þar segir enn fremur að borist hafi fjöldi fyrirspurna frá löglegum kannabissölum um hvernig þeir geti helst stutt við bólusetningarherferðina.

Ekki er langt síðan þessi sama skrifstofa efndi til annars og ekki ósvipaðs kynningarátaks, þar sem fólki bauðst bjór, vín og hanastél gegn því að láta bólusetja sig við COVID-19.

Víða í Bandaríkjunum hefur verið gripið til óvenjulegra ráða til að fá fólk í bólusetningu, allt frá ókeypis kleinuhringjum, miðum á hafnaboltaleiki og 200 dala gjafakortum í Walmart upp í lottómiða þar sem hægt er að vinna milljónir dala í reiðufé og svimandi styrki til háskólanáms. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV