Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Bandarískir auðmenn greiða vinnukonuskatta

09.06.2021 - 12:10
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett RÚV - EPA
Nokkrir af auðugustu mönnum Bandaríkjanna borga mun lægra hlutfall í tekjuskatt en flestir samlandar þeirra. Þetta sýna gögn frá bandaríska skattinum sem þarlendir rannsóknarblaðamenn hafa komist yfir. 

Blaðamennirnir vinna hjá ProPublica, stofnun og miðli sem hefur það að markmiði að upplýsa mál sem koma almenningi til góða. Gögnin sem þeir fengu hafa meðal annars að geyma nákvæmar upplýsingar um skattgreiðslur milljarðamæringa á borð við Jeff Bezos, stofnanda Amazon-netverslunarinnar, Elon Musk, stofnanda Tesla, fjárfestinn Rupert Murdoch, Mark Zuckerberg, stofnanda Facebook, og Bill Gates, stofnanda Microsoft.

Í umfjöllun ProPublica kemur fram að 25 ríkustu Bandaríkjamennirnir borga að meðaltali 15,8 prósent af tekjum sínum í skatt, mun lægra hlutfall en hinn venjulegi Bandaríkjamaður gerir. Sum árin hafa þeir jafnvel ekki borgað neitt í tekjuskatt. Auðkýfingarnir eru ekki sakaðir um skattsvik heldur er bent á að þeir notfæri sér smugur í skattakerfi Bandaríkjanna sem geri þeim kleift að borga lægra hlutfall en allur almenningur. 

Að sögn blaðamanna ProPublica er enn verið að vinna úr skattagögnunum. Frekari upplýsinga er því að vænta á næstu vikum. Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, hefur heitið því að hækka skatta á hina ríku. Að mati blaðamanna ProPublica eiga tillögur forsetaembættisins um breytingar á skattalögunum litlu eftir að skipta um tekjuskatta ríkustu Bandaríkjamannanna. 

Magnús Geir Eyjólfsson
asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV