Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Þriðji áfangi rammans ekki afgreiddur

08.06.2021 - 17:16
Mynd: RÚV / RÚV
Þriðji áfangi rammaáætlunar verður ekki afgreiddur fyrir þinglok. Þingsályktunartillaga um hann hefur þrisvar sinnum verði lögð fram á Alþingi frá því umhverfisráðherra fékk rammaáætlun í hendur fyrir rúmum 4 árum.

Þrír síðustu umhverfisráðherrar eiga það sameiginlegt að hafa mælt fyrir þingsályktunartillögu um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða eða þriðja áfanga rammaáætlunar. Sigrún Magnúsdóttir þáverandi umhverfismálaráðherra lagði þriðja áfangann fram 2016 eða fljótlega eftir hún fékk hann í hendur. Hún rétt náði að mæla fyrir honum því skömmu seinna var boðað til kosninga. Svipuð örlög urðu þegar Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra lagði málið fram vorið 2017. Stjórnin sprakk og efnt var til kosninga. Guðmundur Ingi Guðbrandsson lagði þriðja áfanga fram á þessu þingi og mælti fyrir honum í janúar. Á þessum tíma eru liðin tæp fimm ár. Í öll þessi þrjú skipti hefur málið dagað uppi í nefnd. Þinginu er að ljúka og nú er ljóst að þriðji áfangi rammaáætlunar nær ekki fram að ganga.

„Já ég tel það nokkuð ljóst að það hefur ekki gefist tími til að vinna þessi mál þar sem þau eru seint fram komin. Og því höfum við ekki getað farið í þá vinnu sem þarf til að klára svona stór og mikilvæg mál, því miður,“ segir Vilhjálmur Árnason framsögumaður málsins í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis.

Ísland er rafmagnslaust

En í ljósi þess að málið hefur verið lagt fyrir Alþingi tvisvar sinnum áður, var þá ekki hægt að flýta vinnunni við það? Reyndar er áfanginn öðruvísi nú vegna þess að í ákveðnum tilfellum er verkefnastjórn rammaáætlunar falið að fjalla um vindorku. Vilhjálmur segir að vindorka hafi ekki verið til umfjöllunar áður á Alþingi og þess vegna hafi það verið ný vinna sem þurfti að fara í. Var kannski ekki þrýst á að klára málið?

„Jú, það var var einbeittur vilji allra að klára þessi mál svo að rammaáætlun þrjú þyrfti ekki að koma í fjórða sinn til þingsins sem því miður er orðin niðurstaðan núna og er ekki gott. Ísland er rafmagnslaust. Þannig að við þurfum að taka á þessum málum en við erum bara búin að vera með stór mál í umhverfis- og samgöngunefndinni. Því fór sem fór,“ segir Vilhjálmur.