Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

„Þetta var góður auglýsingagluggi fyrir mig“

Mynd: EPA-EFE / PAP

„Þetta var góður auglýsingagluggi fyrir mig“

08.06.2021 - 18:58
Brynjar Ingi Bjarnason, 21 árs miðvörður úr liði KA skoraði í dag sitt fyrsta landsliðsmark þegar hann kom Íslandi í 2-1 á móti Póllandi í vináttulandsleik í Poznan. Brynjar var stoltur af sinni frammistöðu en svekktur með úrslitin, því leiknum lauk með 2-2 jafntefli.

„Mér fannst leikurinn spilast fínt. Mér fannst við gera hlutina sem þjálfararnir lögðu upp með. Þetta gekk vel 90% leiksins fyrir utan þessar tíu mínútur í lokin þegar botninn datt aðeins úr þessu hjá okkur þegar við vorum að reyna að halda forystunni,“ sagði hinn 21 árs gamli Brynjar Ingi Bjarnason eftir leikinn í Poznan í kvöld.

En hvernig var fyrir KA-manninn að kljást við pólska markahrókinn Robert Lewandowski? „Ég ætla nú bara að vitna í góðan vin minn hann Stubb og segja að bolti er bara bolti,“ sagði Brynjar Ingi og vitnaði þar í Steinþór Már Auðunsson markvörð KA og liðsfélaga sinn í úrvalsdeildinni á Íslandi.

Brynjar sem lék í dag sinn þriðja landsleik skoraði sitt fyrsta landsliðsmark þegar hann þrumaði boltanum inn og kom Íslandi í 2-1. „Ég sá boltann mjög seint. Ég vil meina að það hafi verið smá heppni í snertingunni. En það var mögnuð tilfinning að sjá hann svo í netinu.“

En hvað gera þessir vináttuleikir fyrir feril Brynjars? „Þetta er bara rosalega stórt fyrir mig. Þetta er stór gluggi fyrir mig að sýna hvað ég get gert og hverju ég vil áorka. Þetta var góður auglýsingagluggi fyrir mig og mér finnst ég vera að stíga þetta skref mjög vel,“ sagði Brynjar Ingi.

Tengdar fréttir

Fótbolti

Ánægður að sjá sína leikmenn svekkta með jafntefli

Fótbolti

„Böggandi að þurfa að bíða eftir þessu“

Fótbolti

„Ég hélt einhvern veginn alltaf í drauminn“

Fótbolti

Jafnt í Póllandi - Brynjar stimplaði sig inn með stæl