Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Telur að aðgerðir Europol muni hafa áhrif hér

08.06.2021 - 18:29
Mynd: Hjalti Haraldsson / RÚV
Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, telur að umfangsmiklar lögregluaðgerðir Europol í gær komi til með að hafa áhrif á glæpahópa hér á landi en þeir eru taldir vera um fimmtán talsins. Um 800 glæpamenn voru handteknir í gær, þar af 155 í Svíþjóð, í umfangsmestu lögregluaðgerð sem ráðist hefur verið í á sviði dulkóðaðra glæpa. Það voru löggæslustofnanir nítján landa í samstarfi við Europol sem stóðu fyrir aðgerðunum.

Aðgerðin, sem hlaut nafnið OTF Greenlight/Trojan Shield, fólst í því að bandaríska alríkislögreglan í samstarfi við þá áströlsku þróaði og starfrækti dulkóðaðan samskiptavef, ANOM, með það að markmiði að lokka þangað inn glæpamenn sem tengjast skipulagðri glæpastarfsemi. Markmiðið var að stýra notendum inn á vefinn.  

Karl Steinar segir aðgerðirnar fyrst og fremst ná til stærstu landa í Evrópu en keðjuverkandi áhrif muni verða með þetta sterku inngripi. Því telur hann að þessar tilteknu aðgerðir muni hafa áhrif hér á landi með tímanum. Eins muni þær hafa áhrif á öll lönd sem eru í sérstökum aðgerðum  gegn skipulagðri brotastarfsemi, þar á meðal hér. 

„Þessar aðgerðir munu vonandi hafa lamandi áhrif. Það er verið að grípa inn í með margvíslegum hætti og er þessu ekki lokið þó aðgerðirnar séu kynntar núna,“ segir Karl Steinar.