Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Telja að neytendur hafi ofgreitt milljarða

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Neytendasamtökin áætla að vatnsveitur landsins hafi ofrukkað viðskiptavini sína um milljarða króna frá því ný lög um vatnsveitur tóku gildi árið 2016.

Samtökin krefjast þess að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hafi eftirlit með hvort lögunum sé fylgt og vatnsveitur endurgreiði viðskiptavinum það sem þeir hafa verið ofrukkaðir um.

Bannað að græða

Samgönguráðuneytið komst að þeirri niðurstöðu árið 2019 að Veitur, dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, hefðu ofrukkað viðskiptavini sína um vatnsgjöld.

Samkvæmt lögum væri gjaldinu aðeins ætlað að standa undir rekstri en ekki skila fyrirtækinu arði. Í kjölfarið endurgreiddu Veitur viðskiptavinum sínum hálfan milljarð króna vegna ofgreiddra vatnsgjalda ársins 2016.

Óska eftir aðkomu ráðuneytis

Úrskurðurinn hefur fordæmisgildi fyrir vatnsveitur allra sveitarfélaga. Það var þó ekki fyrr en í síðustu viku sem ráðuneytið gaf út leiðbeiningar um hvernig vatnsveitur skyldu ákvarða gjaldið með hliðsjón af úrskurðinum.

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segir erfitt að meta hvort og þá hve mikið einstaka fyrirtæki hafi ofrukkað viðskiptavini sína og eins hvort þau hafi látið af því í kjölfar úrskurðarins. Það helgist af því að vatnsveita og fráveita séu ekki aðskildar í bókhaldi.

„Við höfum sent ósk til ráðuneytisins um að það hlutist til um það, í fyrsta lagi, að vatnsgjöldum verði komið í lag og lögum fylgt, en einnig að neytendum verði endurgreidd oftekin gjöld,“ segir Breki.