Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Staðan aldrei verri á bráðamóttöku, segir landlæknir

Mynd: RÚV / Skjáskot
Framkvæmdastjórn Landspítala fundaði í allan dag og mun halda áfram fundi á morgun vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem er komin upp á bráðamóttöku spítalans. Læknar segjast ekki geta tryggt öryggi sjúklinga vegna manneklu, landlæknir segir stöðuna aldrei hafa verið verri en nú og segir þjónustuna á deildinni ekki uppfylla lágmarkskröfur.

Undanfarið tvö og hálft ár hefur Alma D. Möller landlæknir sent heilbrigðisráðherra fimm minnisblöð og úttektir um þá alvarlegu stöðu sem skapast ítrekað á bráðamóttöku Landspítala og í fyrra var settur á stofn átakshópur sem átti að finna lausnir á vandanum.

Landlæknir hefur margsinnis heimsótt deildina og fundað með stjórnendum spítalans og í síðasta minnisblaði landlæknis sem sent var fyrir mánuði segir að ljóst sé að þegar álag sé sem mest sé ekki hægt að tryggja faglegar kröfur og réttindi sjúklinga samkvæmt lögum.

„Vandinn er tvíþættur; annars vegar eru of margir eldri sjúklingar sem bíða eftir öðrum úrræðum. Þannig að sjúklingar safnast aðeins upp á bráðamóttöku. Og síðan vantar fagfólk. Þetta er áhyggjuefni en staðan í mönnun bráðalækna, hún hefur ekki verið verri en núna,“ segir Alma.

Embætti landlæknis er eftirlitsaðili og hefur ekki önnur úrræði en að beina tilmælum til spítalans um úrbætur og að upplýsa ráðherra um stöðu mála. Samkvæmt upplýsingum frá Landspítala verða tillögur að lausnum til að leysa vanda bráðadeildar vonandi kynntar síðar í þessari viku, en enginn frá spítalanum sá sér fært að veita fréttastofu viðtal.

Alma segist vonast til að útboð á hjúkrunarrými muni hjálpa til við að leysa vandann. „Það er áfram allt of langur biðtími á bráðamóttökunni fyrir þá sem eru að leggjast inn. Það gengur reyndar vel að sinna mest bráðu tilvikunum.“

Nú hefur þetta verið svona svo árum skiptir - er hægt að bæta úr? „Það er alltaf hægt að bæta.“