Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Of stuttur tími og mörg flækjustig

Mynd: RÚV / RÚV
Landlæknir segir að mörg flækjustig hafi komið upp við breytingar á skipulagi skimana fyrir krabbameini í leghálsi og að of lítill tími hafi verið til stefnu. Það sé áhyggjuefni að konur hiki við að fara í skimun. 

Ákvörðun heilbrigðisráðherra um að færa skimanir við krabbameini í leghálsi frá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um áramótin og flytja sýnin svo til Danmerkur til greiningar, hefur verið talsvert gagnrýnd bæði af almenningi og sérfræðingum í heilbrigðiskerfinu. 

„Ég held að of lítill tími verið til stefnu,“ segir Alma D. Möller landlæknir. „Þetta hefur verið flóknara en flesta grunaði og ég hefði auðvitað viljað sjá að verkefnið hefði verið lengra komið á þessum tímapunkti.“

Hvernig hefði mátt undirbúa það betur? „Það hefði aðallega þurft lengri tíma og síðan fór heilsugæslan af stað með þennan kúf af yfir 2.000 sýnum sem biðu. Þannig að það hefur auðvitað flækt málin. Þannig að það hafa verið mjög mörg flækjustig.“

Margar konur hafa lýst því yfir á samfélagsmiðlum að þær séu hikandi við að fara í leghálsskimun vegna þess að þeim finnist fyrirkomulagið vera í ólestri. Alma segir það vera mikið áhyggjuefni. „Auðvitað þarf að bæta kerfið. Það er unnið að því hörðum höndum á öllum stöðvum.“

Þegar Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins tók við framkvæmd skimana af Leitarstöð Krabbameinsfélagsins um áramótin keypti Embætti landlæknis gagnagrunn með skimunarskrá af félaginu. Hann uppfyllir ekki tæknilegar kröfur og byggist á úreltum skimunarleiðbeiningum. Þá hefur þurft að aðlaga hann til að geta tekið við niðurstöðunum frá Danmörku og það hefur kallað á mikla vinnu. Alma segir að hafist verði handa við að þróa nýjan gagnagrunn í haust.

Haraldur Briem, fyrrverandi sóttvarnalæknir, skilaði í morgun heilbrigðisráðherra skýrslu um framkvæmdina, en hún var unnin að beiðni þingmanna þriggja flokka. Skýrslan hefur ekki verið gerð opinber. Áður en fyrirkomulagi skimana var breytt sendi landlæknir heilbrigðisráðherra tillögur að því hvernig væri best að standa að breytingunum. 

„Við lögðum upp hvað okkur fyndist, hvernig ætti að framkvæma skimanir og síðan er það alfarið heilbrigðisráðuneytisins að taka ákvarðanir,“ segir Alma.