Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Nýr fríverslunarsamningur veldur vonbrigðum

08.06.2021 - 09:27
Innlent · Bretland · Brexit · EFTA · SFS · Sjávarútvegsmál
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi lýsa yfir vonbrigðum með nýjan fríverslunarsamning Íslands og annarra EFTA-ríkja við Bretland, sem staðfestur var á dögunum.

Vonast hafði verið til að markaðsaðgangur íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja yrði betri en fyrir útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, segir hins vegar að samingurinn sé sambærilegur við það sem fyrir var.

Sjá einnig: Nýr fríverslunarsamningur við Bretland

Við útgöngu Breta úr Evrópusambandinu undirrituðu EFTA-ríkin bráðabirgðasamkomulag við Bretland sem tryggði nær óbreyttan markaðsaðgang frá því sem fyrir var, en vinna hófst síðan við gerð varanlegs fríverslunarsamnings.

epa07586803 (L-R) secretary general of the European Free Trade Association (EFTA) Henri Getaz, Norway Foreign Minister Ine Marie Eriksen Soreide, Minister for Foreign Affairs of Liechtenstein Aurelia Frick, Iceland Foreign Minister Gudlaugur Thor Thordarson and Romanian Minister for Business and Trade Stefan Radu Oprea pose ahead of the European Economic Area council in Brussels, Belgium, 20 May 2019. EPA-EFE/OLIVIER HOSLET
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Utanríkisráðherrar EFTA-ríkjanna.

Tollar hindra vinnslu á Íslandi

„Vonir stóðu til þess og umræður voru lengi vel um það að það gætu komið til frekari lækkanir á tollum eða niðurfelling á einstaka sjávarafurðir,“ segir Heiðrún og vísar einkum til sjávarafurða sem ekki hefur þótt forsvaranlegt að vinna á Íslandi sökum hárra tolla.

Má þar nefna lax, karfa og ýmsar flatfiskategundir sem eru að mestu leyti fluttar óunnar úr landi. Ekkert hafi hins vegar breyst með nýja samningnum.

„Það hefur verið metnaður okkar að auka verulega vinnslu þessara tegunda hér á landi og þar með verðmætasköpun en þá þarf að haldast í hendi samkeppnishæfni og rekstrarumhverfi sem styður við það,“ segir Heiðrún.

Aðspurð segir Heiðrún ekki útilokað að samningurinn taki breytingum. Vísar hún í yfirlýsingu utanríkisráðuneytisins þess efnis að samningurinn geti komið til endurskoðunar. „Við getum ekki annað en bundið vonir við að þar verði áherslan á þessa mikilvægu útflutningshagsmuni okkar á þessum stærsta markaði okkar.“

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV