Nógur tími og lífsgleði hjá Moses Hightower og Bubba

Mynd: Alda / Morthens

Nógur tími og lífsgleði hjá Moses Hightower og Bubba

08.06.2021 - 19:15

Höfundar

Það er að venju víða komið við í Undiröldunni og við heyrum nýmeti frá nýliðum sem og reynsluboltum úr bransanum. Moses Hightower senda frá sér ábreiðu af Hljómum og Bubbi er með nýjan sumarslagara en önnur sem koma við sögu eru Richard Scobie, Daníel Óliver, Offbít, Skúli Sverrisson og Ólöf Arnalds ásamt SinfoniaNord og Þórdísi Petru.

Moses Hightower - Lífsgleði

Hljómsveitin Moses Hightower hefur skellt í nýja útgáfu af laginu Lífsgleði eftir Gunnar Þórðarson við texta Þorsteins Eggertssonar. Lagið var upprunalega flutt af Hljómum og var að finna á plötunni Hljómar II frá 1968.


Bubbi Morthens - Ennþá er tími

Ennþá er tími er fjórða smáskífa Bubba frá væntanlegri plötu hans Sjálfsmynd sem kemur út 16. júní. Bubbi heldur því fram að þetta sé klárlega sumarlagið af plötunni. Hann er virkilega ánægður með lagið og Guðmund Óskar, sem sér um útsetningar nýju plötunnar.


Richard Scobie - Plastic Universe

Tónlistarmaðurinn Richard Scobie hefur sent frá sér bítlalegan slagara sem heitir Plastic Universe. Lagið verður að finna á plötunni Carnival of Souls þar sem Scobie hefur þá Hall Ingólfsson, Ronaldo Rodrigues, Berg H. Birgisson, Nate Barnes og Björgvin Gíslason sér til aðstoðar.


Daníel Óliver - Feels Like Home

Lagið Feels Like Home er eftir þá Daníel Óliver Sveinsson og Peter Von Arbin en textann skrifuðu þeir Daníel Óliver og Karl Batterbee. Lagið er popplag í 80's stíl tekið upp í Svíþjóð og fjallar um ástina og lífið. Það verður að finna á fyrstu plötu Daníels Ólivers sem kemur út í lok sumars.


Offbít - Hver ert þú

Hver ert þú?“ er nýjasta lag Offbít og kemur það út á morgun miðvikudaginn 9. júní. Lagið er grípandi sálarpopp og fjallar um tilfinningakokteilinn sem fylgir því þegar fólk verður skotið en fyrsta lag hljómsveitarinnar, Stofustáss, var gefið út fyrir stuttu og fékk góðar undirtektir.


Skúli Sverrisson, Ólöf Arnalds - Alltaf

Tónlistarfólkið Skúli Sverrisson og Ólöf Arnalds sem leika sér á línunni milli tilraunakenndrar popptónlistar og klassískrar tónlistar hafa sent frá sér lagið Alltaf. Þau vinna það með SinfoniaNord sem er sprotaverkefni Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands.


Þórdís Petra - Ég gæti verið

Lagið Ég gæti verið kom út fimmtudaginn 3. júní en það er flutt af Þórdísi Petru söngkonu og lagahöfundi, og er hennar fyrsta lag. Lagið er að sögn Þórdísar draumkennt í nýsálarstíl og fjallar um að losa sig við reiðina.