Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Mikið af Janssen-bóluefni kemur til landsins á morgun

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Síðdegis á morgun kemur stór sending af Janssen-bóluefni við kórónuveirunni. Þetta segir Júlía Rós Atladóttir, framkvæmdastjóri Distica. Fyrir hálfum mánuði bárust tæplega þrjú þúsund skammtar en Júlía segir að skammtarnir verði töluvert fleiri nú. Ekki liggi þó nákvæmlega fyrir hversu margir.

Júlía telur að skammtarnir séu svo margir að unnt verði að bólusetja alla þá sem boðaðir hafa verið í bólusetningu á fimmtudaginn. Þá hafa 11 hópar fengið boð um bólusetningu, sex árgangar karla og fimm árgangar kvenna. 

Von sé á efninu seinnipartinn á morgun og ráðgert sé að afgreiða það til heilsugæslunnar annað kvöld. Þannig eigi það að vera tilbúið fyrir bólusetningu á fimmtudagsmorgun. 

Ein sending kom af AstraZeneca í þessari viku en ekki liggur fyrir hvenær næsta sending berst. 

Um 20 þúsund skammtar berast vikulega af Pfizer í þessum mánuði. Júlía segir að afhendingaáætlanir Pfizer og Moderna hafi alltaf staðist.

Nokkur óvissa ríkir um afhendingu bóluefna í júlí því aðeins hafa borist áætlanir um Moderna. Um 2.600 skammtar hafa borist vikulega af Moderna í maí og júní en í næsta mánuði stækka sendingarnar. 

Íslensk stjórnvöld hafa gert samninga um kaup á bóluefninu CureVac en ekki liggur fyrir hvenær það hlýtur markaðsleyfi.